
Kína: Allar erlendar póstsendingar skulu sótthreinsaðar
Þessi ákvörðun er tekin í kjölfar þess að stjórnvöld staðhæfa að kenna megi póstsendingum að utan um útbreiðslu smita í landinu undanfarið. Jafnframt ber að flokka innanlandspóst annars staðar en þann sem kemur frá útlöndum til að koma í veg fyrir að smit berist á milli.
Kínversk stjórnvöld hafa lagt ríka áherslu á að stöðva alla útbreiðslu umsvifalaust með hörðum aðgerðum, útgöngubanni, eftirliti og víðtækri skimun. Nú hafa komið upp tilfelli hér og þar um landið, einkum í stórborgum svo sem iðnaðarborginni Guangdong og höfuðborginni Peking.
Grunur stjórnvalda um að kenna megi erlendum sendingum um fjölgun smita byggist meðal annars á veikindum konu búsettrar í höfuðborginni sem smitaðist án þess að hafa nokkurt samneyti við smitaða innanlands. Hins vegar hafði henni borist sending frá útlöndum.
Auk þess að hvatt er til sótthreinsunar sendinga að utan er brýnt fyrir starfsmönnum póstsins að þiggja örvunarskammt.
Heilbrigðisstofnanir telja litla hættu stafa af yfirborðssmiti
Á vef Landlæknisembættisins segir að smitleiðir COVID-19 séu úða-/loft-, snerti- og dropasmit. Það þýðir að veiran getur dreifst þegar veikur einstaklingur hóstar, hnerrar eða snýtir sér og annar einstaklingur andar að sér úða frá þeim veika eða hendur mengast af dropum.
Bæði Aljóðaheilbrigðisstofnunin WHO og Sóttvarnarstofnun Bandaríkjanna CDC fullyrða að litlar líkur séu á að smitast af yfirborði hluta og heldur dragi úr hættunni því lengra sem líður frá snertingu þess smitaða.
Ljóst þykir þó að Kínverjar vilji hafa allan varann á í ljósi þess hve stutt er í vetrarólympíuleikana sem verða í næsta mánuði. Í dag var greint frá því að 127 smit hefðu greinst innanlands í Kína.