Mikill hraði var í leiknum frá fyrstu mínútu og þegar tíu mínútur var staðan þ6-6. Áfram héldu liðin að skora og Ómar Ingi Magnússon kom Íslandi í tveggja marka forystu á 17 mínútu og 12-10 stóð þá Íslandi í vil. Íslensku vörninni gekk ekkert sérstaklega vel að stöðva sóknir Ungverja og aftur var jafnt 15-15 þegar fimm mínútur voru til hálfleiks. Aron Pálmarsson gerði síðasta mark Íslands fyrir hálfleik þegar hann kom Íslandi í 17-16 en Ungverjar svöruðu um hæl og staðan var jöfn í hálfleik 17-17.
Liðin héldu áfram að skiptast á að skora í seinni hálfleik en Ísland komst snemma í tveggja marka forystu á ný. Þegar seinni hálfleikur var hálfnaður höfðu Ungverjar þó jafnað á nýjan leik og þá var búið að skora 50 mörk, og staðan 25-25. Þegar sex mínútur lifðu leiks var enn allt í járnum 29-29. Sigvaldi kom Íslandi í tveggja marka forystu þegar þrjár og hálf mínúta var eftir 31-29 en Ungverjar svöruðu sem fyrr um hæl og staðan 31-30. Ýmir Örn Gíslason fékk svo tveggja mínútna brottvísun þar sem eftir lifði leiks á 58 mínútu og Ungverjar fengu vítakast.
Björgvin Páll Gústavsson varði hins vegar meistaralega og staðan því áfram 31-30 þegar Ísland fór í sókn þegar rúm mínúta var eftir. Sú sókn fór hins vegar forgörðum en Ungverska sóknin sömuleiðis, Björgvin Páll varði frábærlega og niðurstaðan varð eins marks sigur Íslands 31-30.
Bjarki Már Elísson var markahæstur í liði Íslands með 9 mörk og Ómar Ingi Magnússon kom þar á eftir með 8 mörk og var valinn maður leiksins. Ísland fer því áfram í milliriðil og tekur með sér tvö stig en það ræðst í leik Hollands og Portúgals á eftir hvort liðið fer áfram með Íslandi en Ungverjar eru úr leik.
Frábær varsla hjá Bjögga og Ísland vinnur 31-30! Komnir áfram í milliriðil með tvö stig með sér! pic.twitter.com/4Dja2Y5S4W
— RÚV Íþróttir (@ruvithrottir) January 18, 2022