Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Ísland í milliriðil eftir frábæran sigur á Ungverjum

epa09693468 Mate Lekai (C) of Hungary is challenged by Elvar Jónsson (L) and Omar Ingi Magnusson of Iceland for the ball during Mens' Handball European Championship peliminary round match between Iceland and Hungary at MVM Dome in Budapest, Hungary, 18 January 2022.  EPA-EFE/Tamas Kovacs HUNGARY OUT
 Mynd: EPA-EFE - MTI

Ísland í milliriðil eftir frábæran sigur á Ungverjum

18.01.2022 - 16:21
Ísland er komið áfram í milliriðil á EM karla í handbolta eftir eins marks sigur á heimamönnum í Ungverjalandi 31-30.

Mikill hraði var í leiknum frá fyrstu mínútu og þegar tíu mínútur var staðan þ6-6. Áfram héldu liðin að skora og Ómar Ingi Magnússon kom Íslandi í tveggja marka forystu á 17 mínútu og 12-10 stóð þá Íslandi í vil. Íslensku vörninni gekk ekkert sérstaklega vel að stöðva sóknir Ungverja og aftur var jafnt 15-15 þegar fimm mínútur voru til hálfleiks. Aron Pálmarsson gerði síðasta mark Íslands fyrir hálfleik þegar hann kom Íslandi í 17-16 en Ungverjar svöruðu um hæl og staðan var jöfn í hálfleik 17-17.

Liðin héldu áfram að skiptast á að skora í seinni hálfleik en Ísland komst snemma í tveggja marka forystu á ný. Þegar seinni hálfleikur var hálfnaður höfðu Ungverjar þó jafnað á nýjan leik og þá var búið að skora 50 mörk, og staðan 25-25. Þegar sex mínútur lifðu leiks var enn allt í járnum 29-29. Sigvaldi kom Íslandi í tveggja marka forystu þegar þrjár og hálf mínúta var eftir 31-29 en Ungverjar svöruðu sem fyrr um hæl og staðan 31-30. Ýmir Örn Gíslason fékk svo tveggja mínútna brottvísun þar sem eftir lifði leiks á 58 mínútu og Ungverjar fengu vítakast.

Björgvin Páll Gústavsson varði hins vegar meistaralega og staðan því áfram 31-30 þegar Ísland fór í sókn þegar rúm mínúta var eftir.  Sú sókn fór hins vegar forgörðum en Ungverska sóknin sömuleiðis, Björgvin Páll varði frábærlega og niðurstaðan varð eins marks sigur Íslands 31-30.

Bjarki Már Elísson var markahæstur í liði Íslands með 9 mörk og Ómar Ingi Magnússon kom þar á eftir með 8 mörk og var valinn maður leiksins. Ísland fer því áfram í milliriðil og tekur með sér tvö stig en það ræðst í leik Hollands og Portúgals á eftir hvort liðið fer áfram með Íslandi en Ungverjar eru úr leik.