
Heræfingar hefjast brátt í Hvíta-Rússlandi
Spennan milli Rússlands og vesturveldanna, sem hefur farið vaxandi vegna aukinna herflutninga Rússa að landamærum Úkraínu, minnkaði ekki við það að Alexander Lukashenko forseti Hvíta-Rússlands tilkynnti um sameiginlegar heræfingar með Rússum í Hvíta-Rússlandi. Og það aðallega í suður- og vesturhluta landsins, sem liggur annars vegar að Úkraínu, og hins vegar að NATO-ríkjunum Póllandi og Litáen.
„Þessar heræfingar ættu ekki að koma Hvítrússum við. Þær ættu að snúast um venjulegar heræfingar sem beinast að því að verjast herliði úr vestri; frá Eystrasaltsríkjunum og Póllandi og úr suðri, frá Úkraínu,“ sagði Lukashenko á blaðamannafundi í morgun.
Rússneskir hermenn eru þegar farnir að streyma til Hvíta-Rússlands en æfingarnar eiga að hefjast í febrúar.
Annalena Baerbock utanríkisráðherra Þýskalands hét því á fundi með utanríkisráðherra Úkraínu í gær að Þjóðverjar myndu gera allt til að tryggja öryggi Úkraínu og Evrópu. Hún ræddi svo við Sergej Lavrov utanríkisráðherra Rússlands í Moskvu í dag. „Á undanförnum vikum hafa yfir 100.000 rússneskir hermenn safnast fyrir með skriðdreka og þungavopn nálægt Úkraínu án nokkurrar augljósrar ástæðu. Það er erfitt að líta ekki á það sem ógn,“ sagði Baerbock að loknum fundinum.
Rússar neita hins vegar frekari viðræðum fyrr en kröfu þeirra um minni NATO-hernað hefur verið svarað. Lavrov sagði tilgangu fundarins skipta máli: „Ef við hittumst til þess eins að [Volodymyr] Zelensky forseti [Úkraínu] geti endurtekið að hópur virtra leiðtoga hafi hist að hans frumkvæði og að því leyti líti hann á verk sitt sem fullkomnað þá þurfum við þess ekki með.“