Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Andstæðingur dagsins: Heimamenn Ungverja

epa09689853 Players of Hungary celebrate winning the Mens Handball European Championship peliminary round Group B match Portugal vs. Hungary in MVM Dome in Budapest, Hungary, 16 January 2022.  EPA-EFE/Tamas Kovacs HUNGARY OUT
 Mynd: EPA-EFE - MTI

Andstæðingur dagsins: Heimamenn Ungverja

18.01.2022 - 08:00
Ísland leikur í dag lokaleik sinn í riðlakeppni EM 2022 í handbolta í Ungverjalandi. Allt er undir í lokaleiknum og sæti í milliriðli í húfi. Andstæðingar dagsins er Ungverjar, sem leika á heimavelli en hafa átt í basli á mótinu.

Ungverjar voru taldir líklegir til afreka á þessu móti. Mögulega var forskotið sem heimavöllurinn veitir ofmetið. Þeir töpuðu fyrsta leiknum gegn Hollandi, 31-28, og mörðu svo Portúgal í öðrum leiknum, 31-30. Þeir eru þó engu að síður með mjög vel skipað lið.

Helsta vopn Ungverja er línumaðurinn Bence Banhidi. Hann er 208 sentimetrar á hæð og rammur að afli. Hann var í úrvalsliði EM 2020 og er sterkur kandidat í að vera besti línumaður heims. Hann meiddist hins vegar lítillega á ökkla í fyrsta leik mótsins og lék ekki gegn Portúgal.

Hægri skytta Ungverja er líka stórhætturlegur leikmaður. Dominik Mathé heitir sá og er 22 ára gamall. Hann spilar hjá Elverum í Noregi en er á leið til stórliðs PSG í Frakklandi á næstu leiktíð. Hann skoraði sigurmark Ungverja gegn Portúgal.

Svo eru reynsluboltarnir Roland Mikler, markvörður, og Mate Lekai, miðjumaður. Þeir hafa oft reynst okkur Íslendingum erfiðir í fjölmörgum rimmum liðanna.

Sögulega einn erfiðasti andstæðingur Íslands

Ísland og Ungverjaland eru sögufrægar handboltaþjóðir og því eðlilegt að landslið þjóðanna hafi mæst oft. Leikurinn í dag er 43. viðureignin. Ungverjar hafa unnið 24, við 15 og þrisvar hefur orðið jafntefli. Síðast þegar liðin mættust, á EM 2020, unnu Ungverjar með 24 mörkum gegn 18.

Alræmdasta viðureignin er þó klárlega leikur liðanna í 8-liða úrslitum Ólympíuleikanna 2012. Þar unnu Ungverjar eftir tvíframlengdan leik, 34-33, og sendu okkur úr keppni. Það er þó ekki eini eftirminnilegi leikurinn gegn þeim. Á HM 1997 slógu þeir okkur út í 8-liða úrslitum og skömmu síðar unnu þeir okkur í umspili um sæti á HM 1999. Á HM 1986 unnu þeir okkur líka, en það ár fór Ungverjaland alla leið í úrslitaleikinn og vann að lokum silfur.

Stórmótaleikir gegn þeim hafa þó ekki verið tómur bölmóður. Við unnum þá bæði á HM 2011 og EM 2012, svo við gleymum nú ekki HM 1995 á Íslandi þar sem við unnum með 23 mörkum gegn 20.

Framundan er enn ein risarimman við Ungverja. Sigur eða jafntefli tryggir okkur sæti í milliriðli. Eins marks tap gerir það sömuleiðis. Tap með tveimur mörkum eða fleiri setur allt í uppnám og þá þarf að treysta á að Portúgal leggi Holland að velli, og þá fer Ísland í milliriðil.

Leikurinn í dag hefst klukkan 17 og er í beinni útsendingu á RÚV og Rás 2. Upphitun hefst í EM-stofunni á RÚV klukkan 16:30.