Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Rússar sakaðir um árásir á opinber vefsetur Úkraínu

FILE - Russian President Vladimir Putin holds a binoculars as he watches the joint strategic exercise of the armed forces of the Russian Federation and the Republic of Belarus Zapad-2021 at the Mulino training ground in the Nizhny Novgorod region, Russia, on Sept. 13, 2021. The Kremlin has rejected Ukrainian and Western allegations that it amassed troops preparing for possible invasion of Ukraine, describing the claims as a cover for their own alleged aggressive designs. (Sergei Savostyanov, Sputnik, Kremlin Pool Photo via AP, File)
 Mynd: AP
Úkraínustjórn segist hafa undir höndum sönnun þess að Rússar hafi staðið að baki umfangsmikilli árás á fjölda vefsetra hins opinbera í landinu á föstudaginn var.

Bandaríski hugbúnaðarrisinn Microsoft segir umfang árásanna vera meira og verra en í upphafi var talið. Tölvuþrjótarnir hafi skilið eftir óværu sem skaðað geti búnað og haft áhrif víðar en upphaflega leit út fyrir. 

Nokkru fyrir árásirnar birtist viðvörun á vefsetrunum þar sem sagði að Úkraínumenn skyldu búa sig undir hið versta. Síðan slokknaði á þeim einu af öðru. Öll kerfi voru orðin virk að nýju nokkrum klukkustundum síðar.

Í yfirlýsingu ráðuneytis stafrænna umskipta segir að tilgangur Rússa með árásinni hafi verið að skapa ógn í Úkraínu, koma á ójafnvægi og draga úr trausti landsmanna á hið opinbera. Rússar haldi upp stafrænum ófriði. 

Vladímír Pútín Rússlandsforseti ber af sér allar sakir og segir af og frá að Rússar standi að baki árásunum. Hann segir Úkraínumenn saka Rússa um allt milli himins og jarðar, jafnvel slæmt veður í landinu.

Mikil spenna ríkir milli Úkraínumanna og Rússa sem stjórnvöld í Kiev staðhæfa að hyggi á innrás í landið. Það sanni mikill liðsafnaður rússneska hersins við austurlandamæri ríkjanna.

Rússnesk yfirvöld segja hann til að vernda hagsmuni sína en krafa þeirra er að Úkraína fá ekki inngöngu í Atlantshafsbandalagið og að Bandaríkjamenn komi sér ekki upp herstöðvum í ríkjum sem áður tilheyrðu Sovétríkjunum.

Samningaviðræður Rússa við Bandaríkin og fulltrúa Atlantshafsbandalagsins í síðustu viku skiluðu engri niðurstöðu. Joe Biden Bandaríkjaforseti varaði þá Rússa áfram við alvarlegum afleiðingum innrásar.

Dmitry Peskov, talsmaður Pútíns, segir þó ákveðins skilnings gæta milli Rússa og viðsemjenda þeirra. Jens Stoltenberg framkvæmdastjóri NATÓ hvatti Rússa í dag til að draga úr viðbúnaði sínum enda væri bandalagið áfram reiðubúið til viðræðna.