Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Birnir – Bushido

Mynd: Sticky Records / Sticky Records

Birnir – Bushido

17.01.2022 - 16:30

Höfundar

Seint síðasta ári sendi rapparinn Birnir frá sér sína aðra breiðskífu sem heitir Bushido og fylgir eftir plötu hans Matador. Plötunni hefur verið vel tekið meðal tónlistarunnenda og gagnrýnenda. Á henni má finna 15 lög og gestainnkomur frá GDRN, Aroni Can, Lil Binna, Krabba Mane og Högna í Hjaltalín.

Birnir segir um plötuna sína, Bushido, að hún sé hans besta verk hingað til og lýsir upptökuferlinu sem löngu og ströngu með hæðum og lægðum. Platan inniheldur ein fimmtán lög sem hafa verið í vinnslu í um þrjú ár og hann segir textana persónulega, djúpa og ljóðræna. Plötunnar hefur verið beðið með mikilli eftirvæntingu enda hefur Birnir haldið mannskapnum heitum frá árinu 2018 þegar Matador kom út með því að senda frá sér lög, bæði einn og í samstarfi við aðra. Sum hafa gengið mjög vel og má þar nefna Spurningar með Páli Óskari og auk þess þröngskífuna Moodboard sem kom út á árinu 2019.

Birnir hefur síðustu ár verið einn vinsælasti tónlistarmaður og rappari landsins og kallar, eins og fyrr segir, til samstarfs á plötunni þau GDRN, Aron Can, Lil Binna, Krabba Mane og Högna í Hjaltalín. Í vinnslu og pródúseringu plötunnar eru þeir Marteinn Hjartarson (Bngrboy), Arnar Ingi Ingason (Young Nazareth), Þormóður Eiríksson og Þórir Már Davíðsson á tökkunum.

Plata vikunnar á Rás 2 er plata Birnis, Bushido. Hún verður spiluð í heild sinni ásamt kynningum Birnis að loknum kvöldfréttum í kvöld auk þess að vera aðgengileg í spilara.