Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Auður vex og örbirgð einnig

Mynd með færslu
 Mynd: Samsett RÚV - EPA
Ríkidæmi þeirra auðugustu hefur vaxið í faraldrinum en jafnframt búa fleiri við fátækt en áður var. Þetta kemur fram í úttekt alþjóðlegu hjálparsamtakanna Oxfam, sem berjast gegn fátækt í heiminum.

Meðal þess sem fram kemur í úttektinni er að frá því í mars árið 2020 hafi sameiginlegur auður tíu ríkustu manna heims meira en tvöfaldast.

Samtökin birta úttekt sína iðulega í tengslum við fund Alþjóðaefnahagsráðsins í Davos í Sviss að því er fram kemur í umfjöllun breska ríkisútvarpsins.

Að þessu sinni verður fundurinn að mestu um fjarfundabúnað vegna stöðu kórónuveirufaraldursins.

Danny Sriskandarajah sem fer fyrir skrifstofu samtakanna á Bretlandi segir nýja milljarðamæringa hafa orðið til næstum daglega í faraldrinum meðan staða 99 af hundraði jarðarbúa hafi versnað.

Það sé meðal annars vegna útgöngubanns víðs vegar auk samdráttar í alþjóðaviðskiptum og ferðaiðnaði. Af því hafi leitt að fátækum í heiminum fjölgaði um 160 milljónir undanfarin tæp tvö ár. Það sýni alvarlega galla á efnahagskerfi heimsins. 

Í úttektinni segir einnig að skortur á heilbrigðisþjónustu, hungur, kynbundið ofbeldi og loftslagsbreytingar valdi einu dauðsfalli á fjögurra sekúndna fresti.

Tölur Oxfam eru byggðar á gögnum frá tímaritinu Forbes, Alþjóðabankanum og svissneska bankanum Credit Suisse. Meðal tíu auðugustu manna heimsins eru Jeff Bezos, Mark Zuckerberg, Warren Buffet, Elon Musk og Bill Gates. 

Aðferðafræði rannsóknar Oxfam hefur oft verið gagnrýnd. Útreikningar stofnunarinnar á gögnum Forbes byggi til að mynda á hreinni eign einstaklinga, svo sem fasteignum og verðbréfum, og skuldir dregnar frá því.

Það leiði meðal annars af sér að ungt fólk í námi eða nýkomið á atvinnumarkaði teljist fátækt enda oft með háar skuldir á bakinu. Þá sé ekki tekið tillit til núverandi eða framtíðartekna þess hóps.