Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Öll uppbygging næstu áratugi innan eldri byggðar

Mynd: Aðalskipulag / Reykjavíkurborg
Öll íbúðauppbygging á höfuðborgarsvæðinu næstu áratugi verður innan eldri byggðar samkvæmt nýju aðalskipulagi Reykjavíkurborgar sem tekur gildi á næstu dögum. Mest verður byggt í Vatnsmýri og Elliðaárvogi.

Í aðalskipulaginu er sett fram stefna um þróun borgarinnar til ársins 2040. Ekki er að finna gagngerar breytingar í skipulaginu, heldur í raun uppfærslu á því skipulagi sem samþykkt var árið 2014.

Engin ný hverfi verða byggð heldur verður öll íbúðauppbygging innan eldri byggðar, mest á þeim svæðum þar sem ný borgarlína er fyrirhuguð. Þrjú svæði gegna lykilhlutverki; Miðborgin og gamla höfnin, Vatnsmýri og loks Ártúnshöfði og Elliðaárvogur. Hér sést að íbúðum fjölgar mest á miðju höfuðborgarsvæðinu, um fjögur þúsund í Vatnsmýri, á þriðja þúsund á Hlíðarenda, Laugardal og Fossvogi, mest í nýja hverfi í Elliðaárvogi eða um tæplega sjö þúsund og á bilinu átta hundruð til fimmtán hundruð í austari byggðum. Mesta þróunin verður því á svokölluðum þróunarás frá Keldum vestur í Örfirisey og frá miðborginni um Vatnsmýri og yfir á Kársnes.

Uppbygging í Vatnsmýri er þó sett fram með þeim fyrirvara að flugvöllurinn víki og starfsemi hans færist í Hvassahraun, en gert er ráð fyrir að starfsemi í Vatnsmýri leggist af árið 2032.

Þrír nýir grunnskólar

Líklega er það Elliðaárvogur og Ártúnshöfði sem tekur hvað mestum stakkaskiptum næsta áratuginn. Iðnaðarstarfsemin sem löngum hefur einkennt þetta svæði víkur fyrir blandaðri byggð og til marks um hversu fjölmennt þetta hverfi verður, þá er gert ráð fyrir þremur grunnskólum í þessum borgarhluta.

Fjórðungur nýrra íbúða í Reykjavík á að vera á vegum óhagnaðardrifinna húsnæðisfélaga og fjölga á leigu- og búseturéttaríbúðum. Fyrirferðameiri iðnaður færist á Esjumela, Hólmsheiði og eftir atvikum Álfsnes.

Færri bensínstöðvar og bílastæði

Auk borgarlínu eru stærstu samgöngumálin lagning hluta Sæbrautar og Miklubrautar í stokk og skipulag Sundabrautar verður endurskoðað þegar niðurstaða liggur fyrir um legu hennar.

Bensínstöðvarnar munu svo smám saman týna tölunni, en dælunum á að fækka um 50 prósent á næstu þremur árum. Einkum eru það bensínstöðvar sem eru inni í hverfum sem koma til með að víkja fyrir íbúðar- eða atvinnuhúsnæði.

Árið 2040 eiga samgöngur í borginni að vera orðnar kolefnishlutlausar og hlutur almenningssamgangna, gangandi og hjólandi að vera kominn upp í 50 prósent af heildarumferð. Samhliða fækkar bílastæðum í borgarlandinu. Ekki eru nefndar tölur en þeim á að fækka markvisst og skipta þeim út fyrir græn svæði, leikvæði eða önnur almenningsrými.