Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Hreinsanir sagðar hafnar innan sveita Talibana

Taliban fighters take control of Afghan presidential palace after the Afghan President Ashraf Ghani fled the country, in Kabul, Afghanistan, Sunday, Aug. 15, 2021. (AP Photo/Zabi Karimi)
 Mynd: AP
Næstum þrjú þúsund úr röðum Talibana hafa verið látin vikja vegna hrottalegrar framkomu sinnar. Forsvarsmenn þeirra segja það gert svo hreinsa megi til í her- og lögreglusveitum.

Þetta kom fram í máli Latifullahs Hakimis, háttsetts manns innan varnarmálaráðuneytis Talibana. Hann segir þá brottreknu hafa svert nafn íslamska veldisins en sérstök nefnd var sett á laggirnar til að meta hegðun liðsmanna. Hakimi fer fyrir nefndinni. 

Talibanar hafa allt frá valdatökunni í ágúst staðhæft að þeir ætli sér að viðhafa mildari stjórnarhætti en tíðkuðust á árunum 1996 til 2001, í fyrri valdatíð þeirra í landinu.

Hakimi segir í samtali við AFP-fréttaveituna að þeir brottreknu hafi orðið uppvísir að spillingu margs konar, eiturlyfjamisferli og óeðlilegum afskiptum af hversdagslífi almennings.

Auk þess sem nokkrir virðist hafa tengsl við hryðjuverkasamtökin sem kenna sig við íslamskt ríki.

Allt frá valdatökunni hafa mannréttindahópar sakað vígamenn Talibana um að hafa myrt liðsmenn öryggissveita afganska ríkisins án dóms og laga þrátt fyrir vilyrði Hibatullah Akhundzada æðsta leiðtoga þeirra fyrir griðum.

Einnig hefur verið dregið mjög úr borgaralegum réttindum almennings, ekki síst kvenna. Hakimi kveðst vonast til að með hreinsunum núna takist að byggja upp heiðarlegar lögreglu- og hersveitir í landinu.