Umhleypingar í veðri og mikil vetrarfærð

15.01.2022 - 07:59
Mynd með færslu
 Mynd: Jóhann Bjarni Kolbeinsson - RÚV
Snjókoma og hálka geta sett strik í reikninginn hjá fólki sem er á leið milli staða. Nokkrar leiðir eru ófærar eða illfærar, skafrenningur og hálka á nokkrum öðrum. Norðvestan- og vestanátt blæs á landsmenn í dag og verður nokkuð hvasst á Suðausturlandi án þess að veður gangi þar í storm.

Norðvestan- og vestanáttir verða ríkjandi í dag. Vindstyrkur verður á bilinu fimm til þrettán metrar á sekúndu víðast hvar en heldur vindasamara á Suðausturlandi þar sem gert er ráð fyrir tíu til átján metrum á sekúndu. Það verður þurrt að kalla á vestanverðu landinu, en snjókoma eða slydda austanlands fram eftir degi. Veður fer kólnandi og verður allt að átta stiga frost  síðdegis. Bætir í vind í kvöld og fer að snjóa vestanlands. Vestlægari og úrkomuminna seint í nótt, en breytileg átt fimm til þrettán og aftur snjókoma á morgun. Suðvestlægari, hlýnar og heldur hvassari með rigningu síðdegis á morgun, fyrst suðvestantil.

Pistill veðurfræðings á vakt er svohljóðandi: „Fremur umhleypingasamt veður næstu daga. Norðlægar áttir með úrkomu oftast nær í formi snjókomu eða slyddu, stundum í éljaformi og hiti lengst af undir frostmarki. Þess á milli verður vindur suðlægari og mun mildari og eins fremur vætusöm sunnan- og
vestanlands.“

Samkvæmt upplýsingum á vef Vegagerðarinnar er mikil vetrarfærð á landinu. Nokkuð víða er þæfingur eftir snjókomu í gær og í nótt en unnið er að mokstri. 

Hálka og skafrenningur er á Hellisheiði en hálka í Þrengslum og á Sandskeiði. Víða á Suðvesturlandi er hálka, hálkublettir eða snjóþekja. Þæfingsfærð og Skafrenningur er á Bröttubrekku, í Svínadal og innst í Hrútafirði en þungfært á Hrútafjarðarhálsi. Snjóþekja er á flestum leiðum í Borgarfirði. Þæfingsfærð er í Ísafjarðardjúpi, Súgandafirði, á Gemlufjallsheiði og Hálfdán en þungfært á Steingrímsfjarðarheiði, Þröskuldum, Vatnsfjarðarhálsi og Kleifaheiði. Ófært erá Klettshálsi og Hjallahálsi.

Ófært er á Þverárfjalli og þungfært á Skagastrandarvegi. Þæfingur er í Húnavatnssýslum, Vatnsskarði og  á Öxnadalsheiði. Éljagangur er í kringum Akureyri og þar fyrir austan. Þæfingur er á Biskupshálsi og snjókoma í kringum Mývatn og á fleiri leiðum á Norðausturlandi. Hálka er á Steingrímsfjarðarheiði og hálka eða hálkublettir nokkuð víða á Austurlandi en greiðfært að mestu með ströndinni. Ófært er um Öxi og Breiðdalsheiði. Hálkublettir eru í kringum Freysnes en annars að mestu greiðfært á Suðausturlandi. 

Varað er við hreindýrum við Jökulsárlón og vetrarblæðingum milli Fáskrúðsfjarðar og Freysnes.

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV