Lögregla fór fram á það um miðjan desember að fá símann í hendur en deilur um lögsögu töfðu afhendingu hans. Talið er að síminn geymi mikilvægar upplýsingar og sönnungargögn í málinu.
Þess á meðal eru textaskilboð og tölvupóstar en Baldwin var einn framleiðenda myndarinnar og aðalleikari.
Talið er líklegt að hann hafi skipst á skilaboðum við vopnavörð myndarinnar um hvers konar vopn skyldi notað við tökuna þegar voðaskotið hljóp af og varð tökustjóranum Halynu Hutchins að bana.
Baldwin afhenti lögregluyfirvöldum Suffolk-sýslu í New-Yorkríki símann en leikarinn býr þar. Allt það sem rannsókn á símanum leiðir í ljós verður afhent yfirvöldum í Nýju-Mexíkó þar sem atvikið átti sér stað í október.
Baldwin var að æfa sig að beina skammbyssu að linsu tökuvélar 21. október síðastliðinn þegar skotið hljóp af. Enginn hefur enn verið ákærður vegna málsins en rannsakendur útiloka engan hlutaðeigandi í því samhengi, þeirra á meðal Baldwin.
Hann hefur alltaf staðhæft að hann hafi talið byssuna óhlaðna en að Hutchins hafi beðið hann að beina henni að sér meðan á æfingunni stóð. Baldwin fullyrðir einnig að hann hafi ekki tekið í gikkinn á byssunni.