Hélt að barnið væri dáið og það væri komið að sér líka

Mynd: RÚV / RÚV

Hélt að barnið væri dáið og það væri komið að sér líka

15.01.2022 - 09:00

Höfundar

„Þarna brást heilbrigðiskerfið algjörlega frá A-Ö,“ segir Jóhanna Þorbjörg Magnúsdóttir. Hún og sonur hennar voru bæði hætt komin í erfiðri fæðingu hans og hún upplifði að hún færi út úr líkamanum og væri að kveðja. Ýmsar áskoranir hafa blasað við Jóhönnu sem greindist í sumar með heilaæxli sem þessi æðrulausi húmoristi nefndi Héðin.

Jóhanna Þorbjörg Magnúsdóttir, lögreglukona og hundaþjálfari, hefur rekið einangrunarstöð fyrir hunda. Hún er öflugur hestamaður og hefur glímt við ýmsar áskoranir á ævinni sem hún mætir alltaf með ótrúlegu æðruleysi og það er alltaf stutt í húmorinn. Jóhanna var gestur Huldu Geirsdóttur í Sunnudagssögum á Rás 2.

Þurfti að fara á snjósleða í skólann

Jóhann Þorbjörg er alin upp í Skagafirði og bjó fyrstu árin á Hólum í Hjaltadal þar sem foreldrar hennar voru í námi. Hún er löngu flutt þaðan en titlar sig enn Skagfirðing og finnst hjartað eiga heima þar. En það gat verið erfitt, sérstaklega á veturna, að búa þar því oft var gríðarlega snjóþungt. Einn veturinn snjóaði svo mikið að bíllinn varð innlyksa og fjölskyldan þurfti að fara um á vélsleða. 

„Þegar ég segi þessa sögu finnst fólki það alveg rosalega spennandi en það var viðbjóður að fara um á snjósleða til að gefa hrossunum og fara í skólann,“ rifjar hún upp kímin. Faðir hennar græjaði afsagað fiskikar og svo var raðað á sleðann þegar fjölskyldan þurfti að fara eitthvert. „Yngsti bróðir minn var fremst, pabbi í miðjunni, svo mamma og ég var sett með töskunum í fiskikarið. Þetta var skemmtilegt í þrjú fjögur skipti en ekki skemmtileg minning hjá mér.“

Þau flytja svo í Laugaland í Holtum og þar býr Jóhanna enn. Henni leiddist skólinn og var óviss hvað hana langaði að gera í menntaskóla. Hún kláraði stúdentinn í Fjölbrautaskólanum í Breiðholti og starfaði meðfram námi sem þjónn og við að temja hross. Svo fékk hún óvænt tækifæri.

Ætlaði að biðja um skemmtanaleyfi en fékk atvinnutilboð

Hún ákvað að halda upp á tvítugsafmælið sitt með stæl og þau áform ráku hana á lögreglustöðina þar sem hún sótti um skemmtanaleyfi. Yfirlögregluþjónninn rétti henni umsóknareyðublað þegar hann sá hana og spurði hvort hún vildi ekki sækja um að verða lögga. Jóhanna sagðist bara hafa ætlað að sækja um þetta leyfi og kvaddi en lögreglumaðurinn hringdi aftur og spurði hvort hún vildi ekki sækja um.

„Hann segir að það sé inntökupróf og að ég þurfi að hlaupa. Ég bara, já, gleymdu því,“ rifjar Jóhanna upp. En svo ákvað hún að það sakaði ekki prófa svo hún reimaði á sig hlaupaskóna og æfði sig. „Svo náði ég þessu inntökuprófi og hef verið þarna síðan.“

Úr leikskólaeftirliti í slys og hörmungar

Lögreglustarfið á enda afar vel við Jóhönnu. „Mér finnst þetta enn skemmtilegasta vinna í heiminum,“ segir hún. Og hver dagur ber eitthvað óvænt í skauti sér. „Þessi daglega vinna finnst mér dásamleg. Það er enginn dagur eins.“ Verkefnin eru miskrefjandi og oft erfið. „Við getum byrjað á að fara í leikskólaeftirlit og þaðan beint í slys eða hörmungar eða að aðstoða fólk. Það getur allt gerst sama daginn.“

Mikilvægt að vera þolinmóður og kunna mannleg samskipti

Lögreglan þarf að vera þverskurður af samfélaginu og þess vegna skiptir máli að lögreglumenn séu fjölbreytt stétt. „Við þurfum alls konar fólk af öllum stærðum og gerðum með alls konar bakgrunn. Þannig myndi ég vilja sjá lögregluna, breiðan hóp í styrkleikum og veikleikum,“ segir hún. „Það sem lögreglumenn þurfa að hafa er styrkur í mannlegum samskiptum, ákveðin þolinmæði og svo erum við svo ólík og það eru svo mörg verkefni að það er gott að vera sem fjölbreyttastur hópur.“

Ræðir við fólk á versta degi lífs þess

Mest krefjandi starf sem Jóhanna hefur unnið er í símsvörun hjá Neyðarlínunni. „Það er ofsalega erfitt að taka við þessum símtölum, vinna úr þeim og koma þeim í réttan farveg,“ segir hún um þá reynslu. Það getur tekið á að taka við símtölum frá fólki sem gjarnan er að upplifa sinn versta dag um ævina. „Þú þarft bæði að skilja að þessar tilfinningar, vera faglegur og mannlegur og allt á 90 sekúndum. “

Flutti til Texas og lærði hundaþjálfun

Jóhanna hefur ekki alltaf búið við atvinnuöryggi og segist reglulega hafa verið rekin á haustin því ekki var hægt að fá fastráðningu. Eitt sumarið fór hú í heimsókn til Bandaríkjann þar sem hún rakst á skóla sem bauð upp á hundaþjálfaranám. Það vakti strax áhuga hennar, hún skráði sig og var skömmu síðar flutt til Texas í hálft ár, í úthverfi Austen. Hún segir að hún hafi fengið menningarsjokk þegar hún lenti í Texas. „Ég grenjaði úr hlátri þegar ég kom út af flugvellinum yfir því að fólk vildi búa þarna, því það er eins og þegar maður opnar ofninn í gangi. Sami hiti,“ segir Jóhanna sem venjulega líður best sjálfri uppi á jökli í almennilegum kulda. „Mér fannst þetta ævintýralega ruglað að fólk vildi búa þarna, en Texasbúar eru frábærir. Mjög sérstakir en ofsalega vinalegir.“

Með byssu í beltinu að þrífa bílinn

En það voru ýmsir siðir og venjur sem Jóhanna átti erfitt með að venjast, eins og til dæmis hve hversdagslegt það þótti að ganga um með byssu. „Ég fékk menningarsjokk til dæmis þegar nágranni okkar var einu sinni að þrífa bílinn og var með skotvopn í beltinu. Mitt vöðvaminni var að grýta krökkunum inn í bílskúr og hringja í neyðarlínuna því þarna væri vopnaður maður en það var annar hver maður með skotvopn.“

Laug að Bandaríkjamönnum að konur borðuðu karlmenn eftir kynlíf

Íslendingurinn þótti Bandaríkjamönnum áhugaverður og þau vissu lítið um landið annað en brandarann um að Ísland væri grænt en Grænland hulið ís. Hún var spurð hvort hún þekkti ameríska tónlist og svaraði hæl. „Nei, að við værum bara með riverdance. Það væri það eina sem við værum með,“ segir Jóhanna og hlær. Einn kennarinn spurði hana líka hvort það væri satt að á Íslandi væru mun fleiri konur en karlar og Jóhanna var líka með svar við því. „Ég sagði að við værum eins og mantran, við borðuðum karlmenn eftir að við eðlumst. Heimskulegar spurningar fá heimskuleg svör.“

Ótrúlegt hvað kvenlíkaminn getur og lífsviljinn er magnaður

Árið 2009 lenti Jóhanna í afar erfiðri lífsreynslu. Hún varð ófrísk og segir að meðgangan hafi gengið vel en þegar kom að því að fæða gekk illa. Hún var í þrjá sólarhringa að reyna að koma barninu frá sér og segir að í því ferli hafi átt sér stað röð mistaka sem kannski sé að einhverju leyti að kenna breyttum aðstæðum í heilbrigðiskerfinu eftir hrun. „En það er ótrúlegt hvað kvenlíkaminn getur og lífsviljinn er magnaður,“ segir hún.

Hélt að barnið væri dáið og það væri komið að sér líka

Það sem gerðist var að drengurinn sat fastur í marga klukkutíma og útvíkkun stöðvaðist. Þá verður uppi fótur og fit að reyna að ná honum út en hann situr fastur í þrjá og hálfan tíma, en rembingurinn tók fimm tíma. Á tímabili segir Jóhanna að mæðginin hafi bæði verið í lífshættu, og hún var sjálf alveg viss um að hann myndi ekki lifa þetta af. Svo fór hún að finna eigið líf fjara út líka. „Svo lít ég niður og sé brjóstkassann hreyfast mjög hægt og það var eins og hann væri að gefa sig,“ segir hún. Í smástund var hún hrædd en svo helltist yfir hana undarleg vellíðan og æðruleysi. „Ég vissi að nú væri komið að mér og allt í einu leið mér bara vel. Það kom svona yfirdrifin rökhugsun þar sem ég áttaði mig á því að fullt af konum deyja í barnsburði í heiminum en ég hafði ekki áttað mig á því að það yrði ég. En mér leið vel, alls ekki sátt við þetta en mér leið alls ekkert illa.“

Fór út úr líkamanum og horfði á sjálfa sig

Svo fannst henni sem hún færi út úr líkamanum og horfði á sjálfa sig. „Maður hljómar smá eins og norn, og ég ber mikla virðingu fyrir þeim, en þá horfði ég bara ofan á mig. Sá ofan á höfuðið á mér, horfði á sjúkrastofuna og leið vel.“ Svo var sem hún fengi högg á höfuðið og vítamínsprautu niður eftir líkamanum. Þá kom drengurinn út, á lífi. „Það var ótrúlega mögnuð upplifun.“

Jóhanna, sem var 22 ára þegar þetta gerðist, ræddi áfallið ekki við neinn, ekki fyrr en mörgum árum síðar þegar hún fór að finna fyrir miklum áhyggjum vegna barna í vinnunni og áttaði sig á því að hún hefði sjálf verið hætt komin, og sonur hennar einnig, sem var áfall sem hún hafði ekki unnið úr. „Ég fékk góða aðstoð frá sálfræðingum í að klára þetta verkefni,“ segir hún. „En þarna brást heilbrigðiskerfið algjörlega frá A-Ö.“

Beið í átta ár með að eignast annað barn

Það stóð ekki til lengi vel að eignast fleiri börn en átta árum eftir fæðingu sonarins varð hún ófrísk af dóttur sinni. „Það er ástæða fyrir því að það eru átta ár á milli og það kom aftan að mér þegar ég er gengin langt,“ segir Jóhanna. Hún hafði hugsað sér að láta reyna á eðlilega fæðingu en áttaði sig svo á því að það væri ekki hægt. „Svo hún er bara tekin út með hníf og gaffli og það var bara dásamlegt.“

Hitti ljósmóður í göngutúr sem áttaði sig á að þetta gæti verið æxli

En nýlega blasti við Jóhönnu glæný áskorun og mögulega sú stærsta til þessa. Hún skildi fyrir rúmu ári og segir það engan dans á rósum að reka fyrirtæki sem einstæðingur með börn. Í vor fór hún að finna fyrir óvæntum einkennum. Hún er ekki með barn á brjósti en byrjaði samt að mjólka skyndilega og fá sýkingar. Hún furðaði sig á þessu og í göngutúr um hverfið mætti hún ljósmóður sem hún lýsti einkennunum fyrir. „Hún kveikir á perunni,“ segir Jóhanna, sem með hvatningu nágrannans fór til læknis og í blóðprufu. Þá kemur í ljós að hún er með æxli í heiladingli sem er að öllum líkindum góðkynja. „Ég fer í lyfjameðferð í haust og var að vonast til að það myndi minnka en það gerði það ekki og þá þarf ég að fara í aðgerð.“

Var mest smeyk í fyrstu

Æðruleysið hefur hjálpað Jóhönnu sem fyrr í þessari áskorun, hún minnir sig á að hún getur ekki stjórnað þessu og sækir því í jákvæðnina. „Ég er alveg smeyk, var það kannski meira fyrst en svo verður þetta hluti af rútínu,“ segir Jóhanna. Hún varð innblásin af orðum séra Hildar Eirar Bolladóttur sem greindist með krabbamein en lýsti því sem hluta af því að eiga líkama. „Þessi orð hafa setið í mér, þetta er eitthvað sem þú getur ekki stjórnað og bara hluti af því að þetta getur gerst.“

Nefndi heilaæxlið Héðin

Heilaæxlið nefndi Jóhanna Héðin og hún hefur kennt þeim óboðna vini sínum um ýmskar gerræðislegar ákvarðanir sem hún hefur tekið upp á síðkastið. „Hann er búinn að gera alls konar,“ segir Jóhanna glettin. „Hann er búinn að kaupa handa mér föt, undirbúa bústaðaferðir. Þú verður að réttlæta einhvern veginn kaup á fimmtíu þúsund króna goretex jakka.“

Spennt fyrir framtíðinni

Þótt það sé stutt í húmorinn hefur auðvitað örlað á kvíða hjá Jóhönnu en hún einbeitir sér að því að hugsa um framtíðina með eftirvæntingu. „Framtíðin er óskrifað blað og búandi á Íslandi eru tækifærin endalaus,“ segir Jóhanna. „Það sem ég sé fyrir mér að ég náttúrulega get gert er að fyrir tveimur árum var ég að útskrifa nýja hundaþjálfara á íslandi og það er eitthvað sem ég hef unun af. Að kenna. Að yfirfæra þekkinguna á aðra. Að læra, eflast og efla nýliðun í greininni á íslandi.“

Hulda Geirsdóttir ræddi við Jóhönnu Þorbjörgu Magnúsdóttur í Sunnudagssögum á Rás 2. Hér má hlýða á viðtalið í heild sinni í spilara RÚV.

Tengdar fréttir

Mannlíf

Læknirinn sagði ekki ár heldur mánuðir

Mannlíf

„Ég verð að segja þér að þau eru ekki foreldrar þínir“