
Helstu breytingar sem tóku gildi á miðnætti
Ríkisstjórnin ákvað á fundi sínum í gær að grípa til hertra sóttvarnaráðstafana til að draga úr álagi á heilbrigðiskerfið í ljósi fyrirliggjandi spár um fjölgun kórónuveirusmita í landinu.
Ráðstafanirnar sem tilgreindar eru í reglugerð Willums Þórs Þórssonar heilbrigðisráðherra byggja á tillögum Þórólfs Guðnasonar sóttvarnalæknis.
Fjöldatakmarkanir fara úr tuttugu niður í tíu manns, hámarksfjöldi í verslunum fer úr 500 í 200 manns og spilasölum, krám og skemmtistöðum verður lokað.
Fimmtíu mega vera í hverju hólfi á sviðslistasýningum og íþróttakeppnir eru heimilar með 50 þátttakendum en án áhorfenda.
Að hámarki mega 20 vera í hverju rými á vetingastöðum líkt og verið hefur, áfram gilda tveggja metra nálægðarmörk og reglur um grímuskyldu eru óbreyttar frá því sem áður var.
Gildandi takmarkanir á skólastarfi verða óbreyttar, samkvæmt reglugerð heilbrigðisráðherra frá 13. janúar síðastliðnum. Þar kemur meðal annars fram að viðhafa beri tveggja metra fjarlægð í kennslu- og lesrýmum.
Sé slík fjarlægð er ekki möguleg verður að lágmarki að hafa eins metra fjarlægð og bera andlitsgrímur.
Helstu breytingarnar
- Almennar fjöldatakmarkanir fara úr 20 í 10 manns.
- Áfram tveggja metra nálægðarmörk og óbreyttar reglur um grímuskyldu.
- Áfram 20 manns að hámarki í rými á veitingastöðum og óbreyttur opnunartími.
- Sviðslistir heimilar með allt að 50 áhorfendum í hólfi.
- Heimild til aukins fjölda með hraðprófum fellur brott.
- Sund-, baðstaðir, líkamsræktarstöðvar og skíðasvæði áfram með 50% afköst.
- Íþróttakeppnir áfram heimilar með 50 þátttakendum en án áhorfenda.
- Hámarksfjöldi í verslunum fari úr 500 í 200 manns.
- Skemmtistöðum, krám, spilasölum og spilakössum verður lokað.