Hart brugðist við smitum í kínverskri borg

15.01.2022 - 05:21
epaselect epa09684648 A man in protective suit walks on the street in Shanghai, China, 14 January 2022. Shanghai local authorities reported two locally transmitted COVID-19 cases and three local asymptomatic cases on 13 January. Four people worked at the milk tea shop, one female employee and her sister, who lived together, have been diagnosed with asymptomatic patients. All five people were related to an imported asymptomatic case reported in the city on 11 January 2022.  EPA-EFE/ALEX PLAVEVSKI
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Íbúar borgarinnar Zhuhai á suðurströnd Kína eru beðnir að halda sig innan borgarmarkanna nema brýna nauðsyn beri til annars. Borgaryfirvöld ákváðu jafnframt að stöðva nær allar strætisvagnaferðir um borgina eftir að omíkron-smit komu upp.

Á fimmtudag var öllum snyrtistofum, spilasölum, líkamsræktarstöðvum og kvikmyndahúsum borgarinnar gert að loka. AFP-fréttaveitan greinir frá því að öllum 2,4 milljónum íbúa borgarinnar hafi verið gert að mæta í sýnatöku eftir að smit greindust í Zhongshan, nærliggjandi borg.

Þegar hafa sjö tilfelli greinst, þar sem einn sýnir lítil einkenni og sex eru einkennalausir. Ætli fólk sér að yfirgefa borgina ber því að framvísa neikvæðu kórónuveiruprófi sem ekki má vera eldra en tveggja sólarhringa gamalt. 

Stjórnvöldum í Kína hefur tekist að halda útbreiðslu veirunnar nokkurn veginn í skefjum með því að grípa til mjög strangra ráðstafana, fjöldasýnataka og útgöngubanns verði smita vart.

Eftir tilkomu omíkron-afbrigðisins hefur orðið æ erfiðara að beita þeim aðferðum en í morgun var greint frá því að 104 innanlandsmit hefðu greinst í Kína undanfarinn sólarhring.