Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Geta frestað tveimur gjalddögum vegna hertra aðgerða

15.01.2022 - 10:42
epa08310600 A local restaurant is empty in downtown Sulphur Springs, Texas, USA, 20 March 2020. All restaurants and bars are ordered to close state wide to sit down customers and can serve takeout only. The World Health Organization (WHO) declared the spread of the most recently discovered coronavirus and the disease COVID-19 a pandemic on 11 March 2020.  EPA-EFE/LARRY W. SMITH
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Frumvarp fjármálaráðherra um heimild stjórnenda vínveitingastaða til að fresta gjalddögum á sköttum og tryggingagjaldi hefur verið lagt fram á Alþingi. Heimildin er tilkomin vegna hertra sóttvarnaráðstafana sem ráðherrar ríkisstjórnarinnar kynntu eftir ríkisstjórnarfund í gær. Ráðstafanirnar fela meðal annars í sér að börum verður lokað. Opnunartími veitingastaða hefur nú verið skertur í tæpa fimm mánuði, frá 25. júlí í fyrra. Frestur til að sækja um viðspyrnustyrki vegna nóvember framlengist.

Samkvæmt frumvarpinu mega stjórnendur veitingastaða sækja um frestun tveggja gjalddaga opinberra gjalda og tryggingagjalds á fyrri hluta árs. Staðirnir verða þá að gera hinar frestuðu greiðslur upp á fjórum gjalddögum á seinni hluta árs. Þau skilyrði eru sett að staðirnir séu ekki í vanskilum með opinber gjöld, skatta eða skattsektir sem voru á eindaga fyrir 1. ágúst og að þeir hafi ekki verið teknir til gjaldþrotaskipta.

Frumvarpið felur einnig í sér að frestur til að sækja um viðspyrnustyrki fyrir nóvembermánuð framlengist til 1. mars. Samkvæmt eldri lögum rann sá frestur út um áramót. Þetta er gert vegna þess að sumir stjórnendur veitingastaða náðu ekki að skila inn umsókn á þeim mánuði sem þeir höfðu til þess í jólamánuðinum.

Í mati á áhrifum frumvarpsins kemur fram að veitingastaðir geta frestað greiðslu samanlagt hálfs til eins milljarðs króna í skatta og tryggingagjöld fram á seinni hluta árs. Ríkið fær féð því seinna í vasann en annars hefði verið. Það mun þó standa skil á útsvarsgreiðslum til sveitarfélaga á réttum tíma. Ríkið gæti lagt út um 150 milljónir króna vegna framlengds frests til að sækja um viðspyrnustyrki vegna nóvember.