Freistast á snjóþungar heiðar fram hjá lokunarhliðum

15.01.2022 - 02:14
Mynd með færslu
 Mynd: Vegagerðin
Nokkur dæmi voru um að vegfarendur hefðu lokanir á Öxnadalsheiði að engu en hún var lokuð í næstum einn og hálfan sólarhring í vikunni vegna veðurs og fannfergis. Snjómokstursmenn urðu að byrja á að draga fjóra bíla í burtu áður en þeir gátu hafist handa við mokstur.

Nota þurfti tvo mokstursbíla, veghefil og snjóblásara við verkið en ástandið var einna verst í Bakkaselsbrekku að því er fram kemur á vef Vegagerðarinnar. Ákvörðun vegfarenda um að sinna ekki lokunarskyldu tafði snjómokstur.

Haft er eftir Grétari Ásgeirssyni, verkstjóra á þjónustustöð Vegagerðarinnar á Akureyri, að næsta vetur verði veginum um Öxnadalsheiði lokað með tvöföldu hliði.

Þá þurfi fólk að stíga út úr bílum sínum sem Grétar kveðst vonast til að fái það til að hugsa sig tvisvar um áður en það fer fram hjá lokunum. „Þótt það séu lokunarhlið eru alltaf einhverjir sem freistast til að fara á heiðina,“ segir Gísli.

Vegfarendur eru hvattir til að fylgjast vel með veðri og færð á vef Vegagerðarinnar, Twitter-síðu hennar eða með því að hafa samband við umferðarþjónustu Vegagerðarinnar í síma 1777.