Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Afla þarf allt að 50% meiri orku fyrir orkuskiptin

15.01.2022 - 12:47
Mynd með færslu
 Mynd: Guðmundur Bergkvist - RÚV
Reisa þarf nýjar virkjanir til að framleiða allt að fimmtíu prósentum meiri raforku en nú svo unnt sé að ljúka orkuskiptum í samgöngum á landi, sjó og í flugi. Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, segir að ekki sé til næg orka fyrir orkuskiptin eins og staðan er nú. Aukin þörf nemi um tíu terawattsstundum. 

„Nei, við höfum hana ekki. Það er sem sagt búið að gera greiningu á orkuþörfinni fyrir orkuskiptin sem Samorka og aðildarfélög Samorku gerðu. Og þetta er umtalsvert magn sem þarf, allt að tíu terawattsstundir sem er mikið magn. En það þarf að hafa það í huga að það magn þarf ekki strax. Orkuskiptin munu gerast hægt, því miður. Þau munu taka tíma í upphafi en svo mun orkuþörfin aukast þegar líður á næstu 20-30 ár,“ segir Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar.

Hvað er orkufrekast?

„Þetta er þríþætt sem við erum að horfa á í orkuskiptunum núna. Það eru samgöngur á landi, það eru skipin og flugvélarnar. Okkur gengur mjög vel með rafvæðingu bílanna, minni bílanna. En síðan þurfum við líklega rafeldsneyti til að fara í þyngri bílana og sérstaklega skipin og líka flugvélar. Rafeldsneyti krefst meiri orku. Það er verri nýting í því. Þannig að þegar við förum að nýta það í stóru magni þá munum við sjá mjög aukna orkuþörf,“ segir Hörður.

Hvaða kostir eru í stöðunni til að virkja?

„Til skemmri tíma er horft til rammaáætlunar. Þá hefur Landsvirkjun verið að undirbúa kosti bæði til skemmri tíma og til langs tíma. Því að bygging virkjana tekur mjög langan tíma. Það tekur a.m.k. tíu ár að undirbúa virkjun. Það tekur að lágmarki fimm ár að fá leyfin og svo tekur fimm ár að byggja. Þannig að það tekur svona 20 ár að undirbúa virkjun. Þannig að þær virkjanir sem við ætlum að fá í notkun 2040 til 2050, þær þarf að skoða núna. En til skemmri tíma, ef við horfum til næstu 5-10 ára, þá hefur Landsvirkjun verið að undirbúa virkjun í Neðri-Þjórsá, sem er Hvammsvirkjun. Við höfum möguleika á að stækka jarðhitasvæðin fyrir norðan, sérstaklega Þeistareyki. Við erum með virkjanir á veituleið Blöndu, svona litlar vatnsaflsvirkjanir. Svo sjáum við möguleika í vindi þar sem við höfum bæði verið að skoða Búrfellssvæði og Blöndusvæði,“ segir Hörður.