Aðgerðirnar leysa ekki undirliggjandi vanda

Mynd með færslu
 Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon - RÚV
Stjórnarandstæðingar á þingi kalla eftir mun stórtækari aðgerðum til að leysa vanda heilbrigðiskerfisins í faraldrinum. Sóttvarna- og efnahagsaðgerðir sem kynntar voru í gær séu tilviljanakenndar og leysi ekki undirliggjandi vanda.

„Draumurinn er sá, í það minnsta að þetta taki af mesta kúfinn í smitunum og ná því eitthvað þannig niður að við förum fyrir vind með heilbrigðiskerfið en ég er náttúrlega miklu öfgafyllri en þetta, það verður að segjast eins og er,“ segir Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, sem hefði viljað sjá stjórnvöld fara hörðustu leiðina sem sóttvarnalæknir lagði til, tíu daga strangar takmarkanir um leið og landamærin væru betur tryggð.

Þá segir Inga að með tillögum sínum séu stjórnvöld í raun að viðurkenna að hraðpróf séu ekki að virka sem skyldi en stærri viðburðir með notkun hraðprófa eru ekki lengur í boði. „Þessi svokölluðu hraðpróf og heimapróf. Þetta er náttúrlega bara eins og Kári stefánsson, okkar góði maður hefur sagt, þetta er ekki öruggt. Það er nokkuð ljóst. Þetta er langt frá því.“

Tíu heima en hundrað í sundlaug

Gísli Rafn Ólafsson, þingmaður Pírata, segir aðgerðirnar nokkuð tilviljanakenndar. „Ef ég ætlaði að halda afmælisveislu mætti ég bara bjóða tíu manns, eða níu manns. En ef við hittumst öll í sundlauginni þá megum við hálffylla hana. Og vera nokkur hundruð manns.“

Öllu alvarlegra, segir Gísli, er að stjórnvöld hafi ekki tekið á undirliggjandi vanda heilbrigðiskerfisins. „Þar þarf einfaldlega að skoða kjör hjúkrunarfræðinga, lækna og annarra heilbrigðisstétta og taka á því vandamáli að það er flótti úr þeirri stétt. Þess vegna vantar mannskap á Landspítalann.“

Alvarlegra ástand en þau þora að fara út með

Helga Vala Helgasdóttir, þingflokksformaður Samfylkingarinnar, vonast til að aðgerðirnar skili árangri en er hæfilega bjartsýn. „Þetta er greinilega miklu alvarlegra ástand en að þau þora að fara út með. Maður sá það svolítið á tröppunum þarna við ráðherrabústaðinn.“

Segir Helga Vala að heilbrigðisgeirinn sé lemstraður og þar þurfi að taka mun stórstígari skref, hvort sem það er á bráðadeildum eða í geðheilbrigðismálum þar sem ekki hafi verið farið í neinar aðgerðir. Sömuleiðis þurfi stórar aðgerðir til að koma veitinga- og menningageirunum til bjargar. „Það getur verið að það sé betra fyrir þessa aðila að þeim sé gert að loka svo að þau geti sótt um lokunarstyrki.“