Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Umfangsmiklar árásir á vefsetur í Úkraínu

14.01.2022 - 11:55
Mynd með færslu
Úkraínumönnum var sagt að búa sig undir hið versta áður en slökkt var á vefsetrunum.  Mynd: Skjáskot
Netglæpamenn réðust í nótt á vefsetur margra ríkisstofnana og ráðuneyta í Úkraínu. Ekki er talið að þeir hafi komist yfir neinar viðkvæmar upplýsingar. Ekki liggur fyrir hver stóð fyrir árásunum.

Nokkru fyrir árásirnar birtu netglæpamennirnir viðvörun á vefsetrunum þar sem sagði að Úkraínumenn skyldu búa sig undir hið versta. Síðan slokknaði á þeim einu af öðru, þar á meðal vefjum utanríkisráðuneytisins og menntamálaráðuneytisins og sendiráðum Úkraínu í Bretlandi, Bandaríkjunum og Svíþjóð.

Að sögn öryggislögreglunnar SBU var ráðist á á annan tug vefsetra hins opinbera. Eftir nokkrar klukkustundir hafði tekist að ræsa nokkur á ný. Glæpagenginu tókst ekki að komast yfir neinar viðkvæmar persónulegar upplýsingar samkvæmt frumrannsókn á árásunum.

Enn hefur ekki verið greint frá því hver eða hverjir voru að verki. Haft er eftir talsmanni stjórnvalda að Rússar hafi staðið að mörgum tölvuárásum að undanförnu. Öryggislögreglan segist hafa komið í veg fyrir tólf hundruð slíkar á fyrstu níu mánuðum síðasta árs.

Josep Borrell, utanríkismálastjóri Evrópusambandsins, hét Úkraínumönnum í dag allri þeirri aðstoð sem stofnanir sambandsins gætu veitt við að upplýsa málið og koma vefsetrunum í gang á ný. Þá sagði Ann Linde, utanríkisráðherra Svíþjóðar, að árásirnar í nótt hefðu verið nákvæmlega af því tagi sem gera hafi mátt ráð fyrir.

asgeirt's picture
Ásgeir Tómasson
Fréttastofa RÚV