Telja byggðaloðnu nánast gefna tveimur stórútgerðum

14.01.2022 - 12:30
Loðna
 Mynd: Rúnar Snær Reynisson - RÚV
Smábátasjómenn telja að Fiskistofa hafi nánast gefið tveimur stórútgerðum allan byggðakvóta loðnu, um 35 þúsund tonn. Aðeins fengust rúm þúsund tonn af þorski fyrir alla byggðaloðnuna á skiptimarkaði. Þeir telja að þetta sé ástæða þess að skerða þurfi strandveiðar og byggðakvóta.

Mikill loðnukvóti var gefinn út og eins og með aðrar tegundir fara 5,3% aflaheimilda í byggðapotta svo sem byggðakvóta og strandveiði. Smábátar veiða ekki loðnu og því er byggðaloðnan boðin út og skipt á henni fyrir þorsk. Skiptimarkaður fór fram í desember og þar fékk Eskja um 30 þúsund tonn af loðnu og Síldarvinnslan um 5 þúsund tonn. Í staðinn létu fyrirtækin samtals 1078 tonn af þorski.

„Algjörlega út í hött“

Þarna telja smábátasjómenn að illa hafi verið farið með byggðaloðnuna. Örn Pálsson, framkvæmdastjóri Landssambands smábátaeigenda, segir að miðað við þorskígildisstuðla hefðu átt að fást 12.600 tonn af þorski fyrir loðnuna. Hann telur að á uppboðsmarkaðnum hefði verið sanngjarnt að fá 6-7000 tonn. Þarna munar alla vega 5000 þúsund tonnum af þorski sem smábátaasjómenn telja sig missa. Til samanburðar er allur strandveiðikvóti næsta sumars 8500 tonn. Örn er mjög óánægður með hvernig Fiskistofa hélt á málum. „Þessi viðskipti eru algjörlega út í hött. Það að láta þarna 35 þúsund tonn af loðnu inn í kerfið þegar loðnuveiðar eru varla hafnar. Ganga mjög illa, allt er veitt í gúanó og verðið lélegt. Þá má búast við því að niðurstaðan verði eins og hún var. Þarna hefði átt að bíða og sjá hvernig vertíðin fer af stað. Og þegar er komin bullandi veiði að þá kannski að láta þetta inn. En síðan þyrfti að vera einhver lágmarksstuðull til að tryggja að nægjanlega mikið fáist inn í pottinn,“ segir Örn. 

Loðnan án veiðigjalda en gjald greitt af þorskinum

Hann telur að ef sanngjarnt magn af þorski hefði fengist fyrir loðnuna hefði ekki þurft að skerða strandveiðar um 1500 tonn. Hægt hefði verið að uppfylla ósk strandveiðiflotans um 48 daga á veiðum. Til á bæta gráu ofan á svart sé loðnan á þessari vertíð án veiðigjalda. „Það er vegna þess að það veiddist lítið, nánast ekkert 2019 og 2020. En síðan þegar skiptin koma þá kemur veiðigjald á þorskinn. Þetta er svona dálítið misvísandi allt saman í þessu,“ segir Örn Pálsson, framkvæmdastjóri Landssambands smábátaeigenda.

 

runarsr's picture
Rúnar Snær Reynisson
Fréttastofa RÚV