Telja Arion banka hafa hunsað reglur fyrir Samherja

14.01.2022 - 16:52
Mynd með færslu
 Mynd: rúv
Svo virðist sem eitt félaga Samherja Holding hafi opnað bankareikning á Íslandi árið 2020, eftir að félagið var rekið úr viðskiptum við norska bankann DNB í kjölfar Namibíumálsins. Stundin greinir frá þessu, og segir að áreiðanleikakönnun vegna peningaþvættis og fjármögnunar hryðjuverka hafi ekki verið gerð við umsókn um kennitölu eins og lög gera ráð fyrir.

Samkvæmt heimildum Stundarinnar (það þarf áskrift af Stundinni til að sjá alla greinina) var sótt um íslenska kennitölu fyrir hönd Esju Shipping, dótturfélag Samherja Holding á Kýpur, í september árið 2020. Í febrúar 2021 sagði Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja og Samherja Holding, í bréfi til starfsmanna Samherja að öll starfsemi Samherja á Kýpur hafi verið flutt til Hollands rúmu hálfu ári fyrr. 

Lög voru sett árið 2018 hér á landi um varnir gegn peningaþvætti. Í reglum Arion banka um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka  segir að stefna bankans sé að berjast gegn því og koma í veg fyrir að þjónusta bankans sé misnotuð í slíkum tilgangi. Jafnframt segir þar að óheimilt sé að stofna til viðskiptasambands nema framkvæmd hafi verið fullnægjandi áreiðanleikakönnun í samræmi við verklagsreglur um þær. 

Ekki hakað við áreiðanleikakönnun

Stundin hefur í fórum sínum umsókn Arion banka um skráningu og útgáfu á kennitölu fyrir Esju Shipping vegna bankaviðskipta. Skjalið er móttekið í lok september árið 2020, og er ekki hakað við reitinn um að áreiðanleikakönnun vegna peningaþvættis og fjármögnun hryðjuverka hafi farið fram.

Þegar Stundin óskaði eftir skýringum frá Arion banka var svarið að bankinn væri bundinn trúnaði um málefni einstakra aðila. Því var bætt við að Arion banki framkvæmi viðeigandi áreiðanleikakönnun á öllum sem óska eftir að koma í viðskipti, í samræmi við lög og reglur og innri ferla bankans.

DNB sektað fyrir bágt eftirlit

DNB lokaði á viðskipti við nokkur félög tengd Samherja eftir rannsókn norska fjármálaeftirlitsins árið 2019. Í niðurstöðum fjármálaeftirlitsins var sagt að DNB hafi sjálfur ekki tekið þátt í peningaþvætti, „en látið hjá leiðast að sinna eftirliti með því að viðskiptavinir sínir gerðu það ekki,“ segir í umfjöllun Stundarinnar. DNB var gert að greiða sex milljarða króna sekt vegna málsins, sem DNB samþykkti að greiða.

Eftir að niðurstaða norska fjármálaeftirlitsins var birt sagði Samherji skýrslu hennar ónækvæma og gagnrýndi að ekki hafi verið haft samband við fyrirtækið við gerð hennar. Jafnframt sagði Samherji að fyrirtækið ætti enga aðild að málinu, heldur snúist meginefni skýrslunnar um starfshætti DNB.

Frétt uppfærð klukkan 19:27 með svari Arion banka til Stundarinnar um að bankinn framkæmi viðeigandi áreiðanleikakönnun á öllum sem óska eftir að koma í viðskipti. Jafnframt tekur bankinn það fram í svari til fréttastofu að engar reglur voru hunsaðar í tengslum við félagið Esja Shipping.