Sigurður Ingi og Katrín þóttu standa sig best

14.01.2022 - 10:05
Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson - RÚV
Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, og Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, stóðu sig best af formönnum stjórnmálaflokkanna í síðustu þingkosningum samkvæmt niðurstöðum nýlegrar skoðanakönnunar Maskínu. Guðmundur Franklín Jónsson, formaður Frjálslynda lýðræðisflokksins, og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, þóttu standa sig verst.

Það kemur vart á óvart að fólki þótti sinn formaður standa sig best. Það er að segja hver og einn hinna níu formanna og oddvita sem spurt var um fékk hæsta einkunn hjá þeim sem lýstu stuðningi við flokk formannsins. Ingu Sæland tókst best upp við að ná til stuðningsmanna allra flokka. Hún er eini formaðurinn sem fékk meðaleinkunn yfir þremur hjá stuðningsmönnum allra flokka. Meðaleinkunn er reiknuð út frá því hvort fólk telur formenn hafa staðið sig mjög vel (5 í einkunn), fremur vel (4), í meðallagi (3), fremur illa (2) eða mjög illa (1). Sigurður Ingi Jóhannsson fékk meðaleinkunn yfir þremur hjá stuðningsmönnum átta flokka af níu sem stuðningurinn skiptist niður á. Stuðningsmönnum allra flokka þótti Guðmundur Franklín hafa staðið sig illa og frammistaða Sigmundar Davíðs heillaði fáa aðra en stuðningsmenn Miðflokksins.

Fyrir utan flokksmenn hvers formanns voru það oftast stuðningsmenn nálægra flokka á hinu pólitíska litrófi sem þótti þeir standa sig vel. Frá þessu eru þó undantekningar eins og Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra og formaður Vinstri-grænna. Fyrir utan hennar flokkssystkini voru það stuðningsmenn Sjálfstæðisflokksins, Framsóknarflokksins og Viðreisnar sem þótti hún standa sig best. Minni ánægja var með frammistöðu hennar meðal stuðningsmanna annarra vinstriflokka.

Aðeins tveir flokksformenn þóttu standa sig vel að mati meirihluta aðspurðra. Það eru Sigurður Ingi Jóhannsson (57,8%) og Katrín Jakobsdóttir (56,1%). 46,0 prósent töldu Ingu Sæland hafa staðið sig vel. Aðeins 2,6 prósentum svarenda þótti Guðmundur Franklín Jónsson hafa staðið sig vel og 5,7 prósent töldu Sigmund Davíð Gunnlaugsson hafa staðið sig vel. 

Guðmundur Franklín og Sigmundur Davíð voru í sérflokki þegar kom að því hverjum fólk þótti hafa staðið sig illa. 84,9 prósent sögðu Guðmund Franklín hafa staðið sig illa í kosningabaráttunni og 75,9 prósent voru sömu skoðunar um Sigmund Davíð Gunnlaugsson. Gunnar Smári Egilsson, formaður framkvæmdastjórnar Sósíalistaflokksins, var þriðji formaðurinn sem rúmlega helmingi þótti standa sig illa (56,0%). Logi Már Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, rétt slapp undir helmingsmörkin, 48,2% sögðu hann hafa staðið sig illa.

Könnunin var lögð fyrir í Þjóðgátt Maskínu, þar sem er fólk á lista fyrirtækisins. 956 einstaklingar af landinu öllu svöruðu könnuninni og eru svör vegin samkvæmt mannfjöldatölum Hagstofunnar um kyn, aldur og búsetu til að endurspegla þjóðina betur. Könnunin fór fram dagana 15. til 28. desember. 

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV