Rúmlega 1.200 smit í gær – átta á gjörgæslu

14.01.2022 - 10:51
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Þór Ægisson
Rúmlega 1.200 kórónuveirusmit greindust í gær. Af þeim voru 1.133 innanlands og 88 á landamærunum. 31 þeirra sem greindust í gær hafði áður greinst með covid. Nýgengi innanlandssmita er nú 3.926 á hverja hundrað þúsund íbúa síðustu fjórtán daga. Það er aðeins minna en daginn áður þegar nýgengið var 4.042. Nýgengi á landamærunum hækkar hins vegar úr 480 í 492.

Tekin voru 4.457 einkennasýni, 205 færri en daginn áður. Miklu munar hins vegar á fjölda sóttkvíarsýna. Þau voru 1.255 talsins í gær en 2.587 í fyrradag. 49 prósent þeirra sem greindust í gær voru í sóttkví við greiningu.

Það fækkaði um einn á sjúkrahúsi milli daga, úr 44 í 43, en fjölgaði um tvo á gjörgæslu. Þar eru nú átta en voru sex samkvæmt tölum sem birtar voru í gær. 

Líkt og undanfarið var staðfest smit hjá um fimmtungi þeirra sem mættu í einkennasýnatöku og hjá tíunda hverjum sem mætti í sýnatöku vegna sóttkvíar eða á landamærunum. Smit eru algengust hjá fólki á aldrinum átján til 29 ára. Þau eru sjaldgæfust hjá elsta fólkinu.