Ráðgjafar forsætisráðherra Póllands gáfust upp

14.01.2022 - 17:28
epa09682991 Health workers inside a modular hospital of the Military Medical Institute in Warsaw, Poland, 13 January 2022. The facility is dedicated to curing the most severe cases of Covid-19.  EPA-EFE/LESZEK SZYMANSKI POLAND OUT
 Mynd: EPA-EFE - PAP
Þrettán af sautján læknum sem hafa verið forsætisráðherra Póllands til ráðgjafar í heilbrigðismálum hafa sagt upp störfum. Þeir segjast vera orðnir langþreyttir á aðgerðaleysi stjórnvalda vegna COVID-19 faraldursins. Þá hafi ráðleggingar þeirra verið hafðar að engu.

Tilkynning pólsku læknanna um uppsögn kemur nokkrum dögum eftir að frá því var greint að farsóttin hefði dregið hundrað þúsund landsmenn til dauða. Þeir segja að stjórnvöld hlusti sífellt meira á þá sem neiti þeirri ógn sem COVID-19 veldur heilsu Pólverja og dragi í efa þýðingu þess að bólusetja þá til að berjast gegn faraldrinum. Sumir ráðherrar og hátt settir embættismenn neiti því jafnvel að hætta sé á ferðum.

Læknarnir segja að mjög lítið hafi verið gert til að draga úr fjölgun smita síðastliðið haust og að takast á við omíkron-afbrigði veirunnar þrátt fyrir að spáð hafi verið að dauðsföllum ætti eftir að fjölga.

Nokkrir þingmenn úr stjórnarflokki Póllands, Lögum og rétti, hafa opinberlega lýst því yfir að þeir séu á móti bólusetningum gegn kórónuveirunni. Mateusz Morawiecki forsætisráðherra þarf á stuðningi þeirra að halda til að stjórn hans haldi velli.

Samkvæmt upplýsingum frá heilbrigðisráðuneytinu í Varsjá hafa 21,3 milljónir af 38 milljónum Pólverja verið bólusettir tvisvar og rúmlega átta milljónir fengið örvunarskammt.

asgeirt's picture
Ásgeir Tómasson
Fréttastofa RÚV