Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Nýtt minnisblað tekið fyrir á ríkisstjórnarfundi í dag

Mynd með færslu
 Mynd: Þór Ægisson - RÚV
Ríkisstjórnin ræðir nýtt minnisblað sóttvarnalæknis að sóttvarnaaðgerðum á fundi sínum í dag klukkan hálf tíu. Undanfarna daga hefur verið þungt hljóð í sóttvarnalækni varðandi stöðu faraldursins.

Sóttvarnarlæknir sagði stefna í hertar aðgerðir

Sóttvarnarlæknir sagði á upplýsingafundi í vikunni að honum sýndist stefna í að herða þyrfti aðgerðir. Ekkert fæst uppgefið um hvað felst í minnisblaði sóttvarnalæknis fyrr en ríkisstjórnin hefur fjallað um það en núverandi sóttvarnartakmörkunum var ætlað að gilda til 2. febrúar næstkomandi.  

Fjöldatakmarkanir miðast við tuttugu manns, reyndar má halda stærri viðburði með hraðprófum og allir eiga að vera komnir út af krám og skemmtistöðum klukkan tíu. Neyðarstigi almannavarna var lýst yfir á þriðjudaginn.

Starfsemi Landspítala löskuð - 45% skurðstofa opnar

Landspítali hefur starfað á neyðarstigi síðan skömmu fyrir áramót og greinir farsóttarnefnd spítalans frá þungri stöðu í pistli í gær. Þá er greint frá því að um 45% skurðstofa séu opnar vegna skorts á starfsfólki. Mikið af starfsfólki er að sinna covid-sjúklingum sem annars myndi manna skurðstofurnar.

„Bráðaaðgerðum og krabbameinsaðgerðum er forgangsraðað en mjög mörgum aðgerðum er frestað áfram. Þar á meðal eru t.d. aðgerðir vegna brota sem oft er miðað við að gera innan viku en sumar verða að bíða lengur, ýmist vegna ástæðna tengdum áverka eða vegna takmarkana tengdum COVID ástandi“ segir í pistli frá farsóttarnefnd spítalans.

Féllust ekki á frestun skólabyrjunar

Ríkisstjórnin féllst ekki á hugmyndir sóttvarnalæknis að fresta skólabyrjun eftir áramót en reglugerð heilbrigðisráðherra um takmarkanir í skólastarfi tóku gildi á miðnætti 13. janúar.

Bæði Þórólfur og Alma sögðu á upplýsingafundi í liðinni viku að heppilegra hefði verið ef stjórnvöld hefðu farið að tillögum sóttvarnarlæknis um að fresta byrjun skólanna eftir áramót. Þau sögðust þó sýna ákvörðun stjórnvalda skilning í ljósi mikilvægis leik- og grunnskóla fyrir samfélagið.

Víða skerðingar á skólastarfi

Í skólum er gert ráð fyrir tveggja metra fjarlægð í kennslu- og lesrýmum. Sé það ekki mögulegt verður að lágmarki að hafa eins metra fjarlægð og bera andlitsgrímu.

Engin kennsla verður í Seljaskóla í Reykjavík í dag vegna fjölda smita og Aðgerðarstjórn Almannavarna á Austurlandi felldi niður kennslu í Nesskóla í Neskaupstað, Eskifjarðarskóla og Grunnskóla Reyðarfjarðar í dag til að draga úr útbreiðslu smita.

Fréttin hefur verið uppfærð.