Langt að komnir

Mynd með færslu
 Mynd: Kig & Husk - Kill the Moon

Langt að komnir

14.01.2022 - 16:24

Höfundar

Kill the Moon er fyrsta breiðskífa dúettsins Kig & Husk. Arnar Eggert Thoroddsen rýnir í gripinn sem jafnframt er plata vikunnar á Rás 2.

Arnar Eggert Thoroddsen skrifar:

Höskuldur Ólafsson og Frank Hall skipa Kig & Husk. Þeir eru þekktir fyrir störf sín í sveitum eins og Quarashi og Ske en þeir voru saman í þeirri síðarnefndu. Þeir félagar sjá að mestu leyti sjálfir um hljóðfæraleik á plötunni fyrir utan trommuleik sem er að mestu í höndum Kjartans Guðnasonar (Ske, m.a.) og Paul Maguire (The Stairs). Í einu laga plötunnar koma svo þeir Hallgrímur Jón Hallgrímsson, Óttar Sæmundsen og Pétur Ben við sögu.

Hér fara tveir menn með áratugareynslu í bransanum og það heyrist á þessari prýðilegu plötu og gott betur en það. Hér er verk sem tveir gamlir vinir hafa verið að dunda sér við að smíða í hjáverkum undanfarin misseri, nostrað við eitt og annað og notalegur andi yfir. Ég get ekki sagt að hér sé svefnherbergisbragur, til þess þyrfti hljóðmyndin að vera hryssingslegri, segjum frekar ástúðarbragur, því að hér er verið að skapa tónlistarinnar vegna. Hún stýrir, ekki söluöfl, og það undirstingur jafnan ákveðinn hreinleika. Þegar allt er saman tekið er þetta falleg plata þó að sú sýn sé ávallt í augum og eyrum þess sem skynjar, svo ég bregði fyrir mér heimspeki Humes með eilitlu dassi af Kant. Hún er falleg vegna heilinda þeirra sem að henni standa en hún rúllar einnig af einstakri smekkvísi og hægð, heilsteypt og sannfærandi er hún alla leið. Það eru ýmsar vísanir hér sem ég skemmti mér við að koma eyrum á. Fyrir það fyrsta rennur um hana nokk sterkur 1968 andi án þess þó að gera hana eitthvað forneskjulega, ekki misskilja mig. Það eru hins vegar óneitanlega sýrutaumar hér og hvar, bæði sígildir (Bítlar, Traffic) en líka nýsýrupopp (Boo Radleys jafnvel, Super Furry Animals). Skrítipopp Beck, rökkurstemmur Badalementi og framsækni Radiohead, þetta þekkja skaparar auðheyranlega mætavel. Ekkert verður til úr engu.
Það er rauður þráður í gegn, gæðalega sem stemningslega, en lagasmíðarnar eru þó mismunandi. „Two Gods in a Taxi“ er dæmigert upphafslag, klifað á sömu setningunni út í gegn og gnægð af litlu skrauti í hljóðrásum. „So long Holly“ er hins vegar ágeng smíð, grófur og feitur bassi og skemmtilegar gítarlykkjur sem eru eftir Frank ætla ég að giska á. Annað er eftir þessu. Gítarinn í titillaginu er klingjandi hvass og rennslið allt annað en eðlilegt, mætti segja. Tilraunakennt popp með stóru T-i. Og jafnvel stóru P-i líka. Eða eins og vís maður sagði eitt sinn: „Djöfullinn er bara Guð á fylleríi“.

Meira að segja zen-ballöður eins og „Tree for a Day“ sleppa ekki undan nálarauga hinna hæfilegu skringilegheita. Hefði sómt sér vel á aftari hluta Amnesiac. „Maximillion“ er af sama meiði og gaman að heyra söngstíl Höskuldar út í gegn en hann er alls konar. Blíður, klemmdur, hátt uppi, dimmur, bara eins og hentar hverju sinni. Drengurinn getur sungið, ó já.

Sterkt verk sem gengur afskaplega vel upp, glúrið bæði og pælt. Dúettinn er langt að kominn reynslulega en vonandi er þetta ferðalag bara í startholunum.

Tengdar fréttir

Popptónlist

Kig & Husk - Kill the Moon