Krefur liðsmenn Nirvana enn um bætur vegna ljósmyndar

Mynd með færslu
 Mynd: Rás 2

Krefur liðsmenn Nirvana enn um bætur vegna ljósmyndar

14.01.2022 - 02:51

Höfundar

Spencer Elden hefur höfðað enn eitt málið á hendur liðsmönnum bandarísku rokksveitarinnar Nirvana. Mynd af Elden fjögurra mánaða gömlum prýddi umslag plötunnar Nevermind árið 1991. Hann sakar nú hljómsveitina um kynferðislega misneytingu.

AFP-fréttaveitan greinir frá því að skaðabótamáli sem Elden höfðaði í ágúst hafi verið vísað frá dómi fyrr í mánuðinum þar sem látið var hjá líða að svara kröfu hljómsveitarinnar um niðurfellingu málsins.

Rök hljómsveitarinnar voru þau að krafa Eldens væri löngu fyrnd og að honum væri ekki alvara með því að segja myndina vera barnaklám. Elden og lögmönnum hans var veittur tíu daga frestur til að bregðast við sem þeir hafa nú gert.  

Hann krefur þá Dave Grohl og Krist Novoselic, dánarbú söngvarans Kurts heitins Cobain, Kirk Weddle, ljósmyndarann sem tók myndina og fleiri um 150 þúsund bandaríkjadala skaðabætur hvern. 

Þegar málið var höfðað voru rök Eldens og lögmanna hans þau að hvorki hann né lögráðamenn hans hefðu heimilað notkun myndarinnar né heldur hefði komið til greina að birtar væru klámmyndir af honum. Samkvæmt bandarískum lögum geta þolendur kynferðislegrar misnotkunar á barnsaldri krafið hvern þann sem framleiðir ljósmyndir, dreifir þeim eða hefur þær í fórum sínum um skaðabætur og vexti af þeim. 

Elden hefur iðulega tekið þátt í endurgerð ljósmyndarinnar en þá alltaf klæddur sundskýlu. Hann segist þó hafa gert það nánast nauðugur viljugur og með óbragð í munni. 

Umslag plötunnar Nevermind er sennilega eitt það þekktasta í veröldinni. Þar má sjá Elden nakinn í sundlaug teygja sig eftir dollaraseðli sem hangir í öngli. Platan hefur selst í yfir 30 milljónum eintaka. 

Mynd með færslu
 Mynd:

Tengdar fréttir

Tónlist

Í mál við Nirvana vegna plötuumslags Nevermind

Erlent

Hið þjáða andlit X-kynslóðarinnar

Tónlist

Kassagítar Cobains falur á tugi milljóna