Í skyggnilýsingaskóla til geta lesið í sóttvarnarreglur

Í skyggnilýsingaskóla til geta lesið í sóttvarnarreglur

14.01.2022 - 19:32

Höfundar

Fólk í veitinga- og viðburðargeiranum furðar sig á ákvörðun stjórnvalda að loka skemmtistöðum.

Afgreiðslutími veitingastaða verður óbreyttur, það er til 21 á kvöldin og síðustu gestir fara út klukkan 22. Gestir mega að hámarki vera 20. Skemmtistöðum, krám og spilasölum verður lokað.  „Þetta þýðir bara að núna ákveða þau að loka svona 10 krám og opna 100 krár á veitingastöðum í borginni í staðinnh. Fólkið sem að kom til okkar hefur núna leyfi til að fara á veitingastaði. Þar eru nákvæmlega eins borð og nákvæmlega eins stólar. Þar getur fólk keypt sér bjór og sleppt því að kaupa sér mat. Takk endilega allan daginn“, segir Kormákur Geirharðsson hjá Ölstofu Kormáks og Skjaldar.

Hann segist ekki skilja hvers vegna enn sé verið að þjarma að þeim sem vinna á börum. „Ég hef ekki heyrt af smitum á vínveitingastöðum mjög lengi.  Þeir sem hafa smitast í kringum mig undanfarið koma allir úr skólum. Mér finnst ráðstafanirnar afskaplega slæmar og illa ígrundaðar.“

Ákvarðanir sem teknar voru í dag hafa mikil áhrif á skemmtanaiðnaðinn.„Þetta þýðir gríðalegt tekjutap fyrir allan viðburðargeirann. Það seljast engir miðar og það er ekki hægt að halda neina viðburði. Það var þó hægt að halda 200 manna viðburði með hraðprófum og grímuskyldu og eins metra reglu. Auðvitað var þetta mjög íþyngjandi en nú er ljóst að það er ekkert hægt að gera“, segir Hrefna Sif Jónsdóttir framkvæmdastjóri TIX.  

Hún segir að framan af hafi ríkið hlaupið undir bagga en svo hafi ekki verið frá því síðasta vor. „Það hefur verið mikil óviss og kvíði og streita  í fólki því að það veit ekki neitt. En það virðist vera að það verði loksins einhverjar efnahagslegar aðgerðir.  Við fögnum því auðvitað“, segir Hrefna.

Kráreigendur segja erfitt að reka fyrirtæki við þessar aðstæður „Ég ætla að fara í skyggnilýsingaskóla og reyna að finna út hvernig ég get lesið í þetta í framtíðinni“, segir Kormákur Geirharðsson.