
Havana-heilkennið herjar enn á sendifulltrúa
Sendifulltrúarnir veiktust í fyrrasumar. Einn þeirra var fluttur í skyndi vestur um haf til meðferðar að því er segir í frétt breska ríkisútvarpsins. Heilkennið virðist eingöngu herja á opinbera starfsmenn sem eru í utanríkisþjónustu eða starfa að varnarmálum.
Antony Blinken utanríkisráðherra Bandaríkjanna segir að orsakar veikindanna sé leitað af krafti. Óttast er að einhver andstæðingur Bandaríkjanna beini örbylgjum að starfsfólkinu.
Um helmingur þeirra sem veikst hafa starfa hjá leyniþjónustu Bandaríkjanna ásamt fjölskyldum þeirra. Hinn helmingurinn er starfsmenn varnarmála- og utanríkisráðuneyta.
Þá hafa kanadískir diplómatar á Kúbu fundið fyrir veikindum. Þau sem veikjast finna fyrir svima og mikilli þreytu mánuðum saman en Blinken segir að fátt sé enn vitað um uppruna veikindanna þrátt fyrir ítarlegar rannsóknir.
Talið er að Rússar, Kínverjar og Bandaríkjamenn sjálfir hafi gert tilraunir með notkun örbylgja í hernaðarskyni en Rússar hafna alfarið ásökunum um að þeir hafi beint slíkum vopnum að bandarískum erindrekum.