Gummi Gumm: „Ætlum að keyra eins og við getum“

Mynd: EPA / EPA

Gummi Gumm: „Ætlum að keyra eins og við getum“

14.01.2022 - 18:23
Íslenski hópurinn er klár fyrir leik kvöldsins gegn Portúgal á EM karla í handbolta. Samkvæmt þjálfaranum Guðmundi Guðmundssyni er planið að nýta hraðaupphlaupin og keyra á hraðann. Einar Örn Jónsson hitti á Guðmund stuttu fyrir leik.

„Við gerum okkur grein fyrir því að þetta er erfiður leikur sem við erum að fara í. Ég á von á því að þeir gætu spilað mikið á okkur sjö á sex, við erum búnir að búa okkur vel undir það. Við erum búnir að liggja yfir þessu síðan við komum saman og ég náttúrulega enn lengur en það. Þannig að við erum fullir tilhlökkunar meira heldur en nokkuð annað. Bara gott að byrja þetta. Þetta hefur verið langur aðdragandi við skrítnar aðstæður. Við þurfum bara að komast í gang.“

Guðmundur segir erfitt að setja saman lið og vill ekki tjá sig um hvers vegna þeir Ágúst Elí Björgvinsson, Daníel Þór Ingason, Elvar Ásgeirsson og Teitur Örn Einarsson voru settir út úr hópnum fyrir verkefnið í kvöld. 20 leikmenn eru skráðir til leiks á mótinu en einungis 16 á leikskýrslu hverju sinni. 

„Ég reikna með að Björgvin verði í markinu, Sigvaldi og Bjarki, Aron og Gísli, Ómar og mjög líklega Ýmir á línunni. Við hliðina á honum í vörninni svo verður Elvar. Svona er byrjunarliðið í kollinum á mér núna.“