Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Ekki skaðabótaskylda vegna lokana bara og skemmtistaða

14.01.2022 - 17:17
Mynd með færslu
 Mynd: Lögreglan á Höfuðborgarsvæ? - Facebook
Íslenska ríkið var í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag sýknað af skaðabótakröfu Austuráttar ehf., eiganda The English Pub. Austurátt krafðist þess að íslenska ríkið greiddi bætur vegna fjártjóns sem fyrirtækið varð fyrir þegar kveðið var á um tímabundnar lokanir kráa og skemmtistaða árið 2020 vegna kórónuveirufaraldursins.

Austurátt taldi að heilbrigðisráðherra hefði brotið gegn jafnræðisreglu þegar krám og skemmtistöðum var gert að loka en veitingastöðum og kaffihúsum sem hafa áfengisleyfi var ekki lokað.

Dómurinn féllst ekki á þetta. Ekki væri hægt að horfa framhjá því að rekja mætti verulegan fjölda þeirra smita sem upp komu um miðjan september 2020 til kráa og skemmtistaða. Þá liggi fyrir gögn erlendis frá þar sem skemmtistaðir og krár eru sett í efsta flokk með tilliti til smithættu og smitdreifingar. Þá taldi dómurinn málefnaleg rök að baki því að greinarmunur var gerður á krám og skemmtistöðum annars vegar, og veitingastöðum og kaffihúsum hins vegar. Því var íslenska ríkið sýknað af skaðabótakröfunni.