Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

DV og 24.is brutu ekki siðareglur Blaðamannfélagsins

14.01.2022 - 17:10
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Siðanefnd Blaðamannafélags Íslands hefur komist að þeirri niðurstöðu að miðlarnir 24.is og DV hafi ekki brotið gegn siðareglum félagsins. Fyrri úrskurðurinn snýr að umfjöllun 24.is um Facebook hópinn Karlmennskan og hinn að frétt DV um aðkomu Jakobs Frímanns Magnússonar að svokölluðu liprunarbréfi. 

Var ósáttur við myndbirtingu af sér

Úrskurðurinn sem snýr að miðlinum 24.is varðar mann sem kærði miðilinn vegna myndbirtingar sem tengdi hann við umfjöllun miðilsins um Facebook-hópinn Karlmennskuspjallið. 

11.október birti miðillinn umfjöllun undir fyrirsögninni Karlmenn sem rakka niður konur í leyni: Hulunni svipt af hópnum. Þar er fjallað um Karlmennskuspjallið og lítillækkandi orðræðu sem 700 meðlimir hópsins viðhafa um konur. Umfjölluninni fylgir samsett mynd af nokkrum meðlimum hópsins þar sem sjá má manninn sem kærir. Maðurinn taldi myndina vera tilefnislausa og særandi, því ekkert í umfjölluninni tengi hann annars við Facebook-hópinn sem er til umræðu. 

Miðillinn birti síðar frétt með nokkrum ummælum mannsins úr hópnum, segir þar að staðið hafi til að birta þau með fyrri umfjölluninni og kveðst jafnframt harma að það hafi ekki verið gert.

Siðanefnd segir kæru mannsins hafa verið reifaða með óljósum hætti. Þá hafi verið óskað eftir viðbrögðum hans sem aldrei hafi borist þrátt fyrir ítrekun. Í kjölfar þess að 24.is birtu síðar ýmis ummæli hans í Karlmennskuspjallinu og leiðréttu fyrri greinina telur Siðanefnd ljóst að maðurinn hafi tilheyrt umræddum hópi og geti því ekki vikist undan því að vera tengdur honum í umfjöllun með myndbirtingu. Vefmiðillinn telst því ekki hafa brotið gegn siðareglum Blaðamannafélagsins.

Umfjöllunin átti erindi til almennings

Hinn úrskurðurinn snýr að manni sem kærði miðilinn DV fyrir hönd ólögráða sonar hans vegna fréttar DV um aðkomu Jakobs Frímanns Magnússonar að svokölluðu liprunarbréfi sem fengið var vegna drengsins.

Í frétt DV, sem ber fyrirsögnina Jakob Frímann sakaður um að beita blekkingum til að koma barni úr landi. er fjallað um hið svokallaða liprunarbréf sem Jakob Frímann sótt um fyrir hönd mannsins. Fréttin snerist um aðkomu Jakobs að málinu en maðurinn og sonur hans voru hvergi nafngreindir. Umfjöllunin leiddi til þess að utanríkisráðuneytið afturkallaði bréfið og baðst afsökunar á vinnubrögðum sínum. 

Í ljós þeirrar stjórnsýslumeðferðar sem málið hlaut, með afturköllun og afsökunarbeiðni af hálfu ráðuneytisins, telur siðanefnd að umfjöllunin hafi átt erindi til almennings og nægilega hafi verið vandað til verka í framsetningu og úrvinnslu. Miðillinn telst því ekki brotlegur við siðareglur.

solveigk's picture
Sólveig Klara Ragnarsdóttir
Fréttastofa RÚV