Það var snemma í morgun á íslenskum tíma að fregnir bárust af því að tennis snillingurinn Novak DJokovic væri að öllum líkindum á leið burt frá Ástralíu þar sem hann hefur fengið að dúsa á farsóttarhóteli frá því að hann kom þangað í síðustu viku. Djokovic átti að fá undanþágu á þeim reglum sem gilda í landinu er varða óbólusetta ferðamenn, sem alla jafna fá ekki inngöngu í landið.
Djokovic er ekki bólusettur en hafði vottorð um fyrri sýkingu meðferðis þegar hann kom til landsins og til stóð að hann fengi undanþágu eins og áður segir. Áströlsk stjórnvöld voru hins vegar á öðru máli og var stórstjarnan, sem getur orðið sigursælasti tenniskappi frá upphafi með sigri á mótinu, stöðvaður við komuna til landsins og þurfti að bíða í átta klukkutíma eftir afgreiðslu.
Alex Hawke, innflytjendaráðherra Ástralíu, hefur núna endanlega tekið þá ákvörðun að vísa Djokovic úr landi. Hann sagðist gera það með hagsmuni landa sinna að leiðarljósi.
Serbinn á möguleika á því að áfrýja þeim úrskurði en hann hefur nú þegar unnið eitt mál fyrir dómi þegar dómari endurnýjaði vegabréfsáritun fyrir hann í byrjun vikunnar.