Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Áríðandi að ljúka gerð kjarnorkusamnings fljótt

epa07687216 (FILE) - A general view of the Iranian nuclear power plant in Bushehr, southern Iran, 21 August 2010 (reissued 01 July 2019). According to Iranian media on 01 July 2019, Iran has passed the limit on its stockpile of low-enriched uranium by exceeding of 300kg that was set in a landmark 2015 nuclear deal made with world powers. The International Atomic Energy Agency (IAEA) said it will file a report.  EPA-EFE/ABEDIN TAHERKENAREH
Bushehr-kjarnorkuverið Í Íran. Mynd: EPA-EFE - EPA
Bandaríkin þurfa að leita annarra leiða náist ekki samkomulag við Írana um kjarnorkuáætlun þeirra. Antony Blinken utanríkisráðherra Bandaríkjanna segir að örfáar vikur séu til stefnu.

Blinken segir að Íranar séu mjög nærri því að geta framleitt kjarnkleyft efni sem nægi til smíði kjarnavopna.

Upphaflega samkomulagið er frá 2015. Þá var samþykkt að Íranar hættu að auðga úran og veittu eftirlitsmönnum Alþjóðakjarnorkumálastofnunarinnar aðgang að kjarnorkuverum sínum. Því var ætlað að tryggja að þeir kæmu sér ekki upp kjarnavopnum. Á móti skyldu Vesturveldin láta af refsiaðgerðum í landinu.

Frá því að Donald Trump fyrrverandi Bandaríkjaforseti rifti samkomulaginu árið 2018 segir Blinken að kjarnorkurannsóknum Írana hafi fleygt mjög fram. Hann telur að æ erfiðara verði að snúa af þeirri braut. 

Í kjölfar riftunarinnar yrir tæpum fjórum árum voru refsiaðgerðir og þvinganar gegn Írönum endurvaktar. Þeir tóku þá að auðga töluvert meira úran en gert er ráð fyrir í upphaflega samningnum.  

Samningaviðræður hófust í nóvember eftir nokkurra mánaða hlé vegna forsetakosninga í Íran. Bandaríkjastjórn hefur lýst því yfir að nokkuð hafi miðað í samkomulagsátt en ekki nægilega langt. 

Blinken segir að endurupptaka samkomulagsins tryggja öryggi Bandaríkjanna best en takist það ekki þurfi að kanna nýja möguleika. Til þeirra verði gripið með fulltingi bandalagsríkja í Evrópu og Miðausturlöndum. Undirbúningur þeirra viðbragða hafi staðið vikum og mánuðum saman. Blinken hefur ótvírætt gefið í skyn að hernaðaraðgerðum verði beitt náist ekki samkomulag við Írana.