Ákærður fyrir að hafa rofið þagnarskyldu

14.01.2022 - 13:09
epa05917474 Danish Defence Minister Claus Hjort Frederiksen attends a press conference after a welcoming ceremony of the deployment of a multi-national NATO force battalion in Tapa, Estonia, 20 April 2017. Some 250 French troops were due to arrive in Tapa in a contingent of the international NATO battalion stationed there within the scope of NATO's Enhanced Forward Presence mission. Troops of leading nation Britain in Tapa are supported by French troops and also Danish from 2018 on.  EPA/Valda Kalnina
Claus Hjort Frederiksen, fyvverandi varnarmálaráðherra Dana. Mynd: EPA
Claus Hjort Frederiksen, fyrrverandi varnarmálaráðherra Danmerkur, hefur verið ákærður fyrir að hafa brotið þagnarskyldu með því að upplýsa um ríkisleyndarmál. Það er hann sagður hafa gert þegar hann upplýsti í blaðaviðtali að danskar og bandarískar leyniþjónustustofnanir hafi staðið saman að hlerunum og skipst á upplýsingum.

Frá því var greint í dönskum fjölmiðlum á sínum tíma að danska leyniþjónustan fylgist með allri síma- og netnotkun í Danmörku og Þjóðaröryggisstofnun Bandaríkjanna NSA hafi aðgang að þessum upplýsingum. Að sögn danskra fjölmiðla staðfesti Claus Hjort Frederiksen samstarf þjóðanna á þessu sviði í viðtali við Weekendavisen árið 2020. 

Frederiksen var varnarmálaráðherra á árunum 2016 til '19. Í yfirlýsingu sem hann birti í dag vegna málsins staðfestir hann að hafa verið ákærður fyrir að hafa farið yfir mörk tjáningarfrelsis síns. Hann hafi tjáð sig um pólitískt mál sem almennur þingmaður. Aldrei hefði hvarflað að honum að upplýsa um neitt sem gæti skaðað Dani eða hagsmuni dönsku þjóðarinnar. Hann hafi engu við málið að bæta að svo stöddu. Í yfirlýsingunni kemur ekkert fram um hvaða ríkisleyndarmálum hann er sakaður um að hafa lekið. 

Verði ráðherrann fyrrverandi sakfelldur á hann fangelsisvist yfir höfði sér. Heimilt er að dæma þá í allt að tólf ára fangelsi sem greina frá ríkisleyndarmálum. 

asgeirt's picture
Ásgeir Tómasson
Fréttastofa RÚV