Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Verð notaðra bíla hefur hækkað mjög í Bandaríkjunum

The Porche Carrera GT car is introduced at the North American International Auto Show at Cobo Hall in Detroit, Michigan on Sunday 04 January 2004.  EPA/ROB WIDDIST
 Mynd: EPA
Eigendur notaðra bifreiða í Bandaríkjunum hafa undanfarið getað selt þær fyrir jafnmikið eða jafnvel meira en þeir upphaflega borguðu fyrir þá. Meðal ástæðna er samdráttur í framleiðslu nýrra farartækja.

Verðhækkun á notuðum bílum er alger nýlunda á bílamarkaði þar í landi og sennilega á heimsvísu en meginástæðan er hve mjög hefur hægt á bílaframleiðslu vegna skorts á tölvukubbum sem nauðsynlegir eru nútímafarartækjum.

AFP-fréttaveitan hefur eftir Aurelien Guillaud eiganda bílasölu í Arlingtonborg í Virgínuríki, skammt frá höfuðborginni Washington, að ekki sjái fyrir endann á verðhækkun notaðra bíla. 

Tekið er dæmi af manni sem borgaði 60 þúsund Bandaríkjadali fyrir bíl árið 2017 og seldi hann fyrir 62 þúsund fjórum árum síðar.

Eftirspurn eftir notuðum bílum hefur aukist vegna skorts á nýjum en verð notaðra farartækja hækkaði um ríflega 37 prósent á síðasta ári. Það skýrir að hluta til um 7% hækkun neysluverðs vestra á árinu.

Önnur afleiðing samdráttar í bílaframleiðslu er sú að bílaleigur hafa ekki selt lítið notaða bíla líkt og tíðkast hefur.

Það eykur enn á skortinn og hækkar verð. Íhlutir eru yfirleitt framleiddir í Asíu og strangar sóttvarnaraðgerðir í Kína eru taldar geta aukið enn á vöntunina. 

Greinendur hjá endurskoðunarfyrirtækinu KPMG vilja þó halda því til haga að hátt verð notaðra bíla vari ekki að eilífu. Sagan kenni það og að innan tíðar verði skortur á íhlutum að baki, bílasölur fyllist aftur af notuðum bílum og búast megi við verðlækkun sem geti numið allt að 30 af hundraði.