Vantar um 200 hjúkrunarfræðinga og sjúkraliða

13.01.2022 - 20:34
Mynd með færslu
 Mynd: Grímur Jón Sigurðsson - RÚV
Starfandi forstjóri Landspítalans segir að sjúkrahúsið vanti í kringum 200 hjúkrunarfræðinga og sjúkraliða til að ráða við fyrirsjáanlegt álag í núverandi bylgju. 

„Við erum búin að vera að greina það [mönnunarþörfina], miðað við líklega spá, þá lítur út fyrir miðað við að manna gjörgæsludeildirnar, það sem upp á vantar þar og covid-göngudeildina að þá erum við að tala um sirka 200 stöðugildi,“ segir Guðlaug Rakel Guðjónsdóttir, starfandi forstjóri Landspítala.

Hvað er hægt að gera í þessu? „Það er kannski fátt um fína drætti í rauninni, nema biðja fólk um að auka vinnuframlag með einhverjum hætti.“

Þá hefur verið leitað í bakvarðalistann, aðallega vantar hjúkrunarfræðinga og sjúkraliða. „Við höfum sloppið fram að þessu en nú er spáin og róðurinn að þyngjast,“ segir hún.

Búið er að kanna hvort Norðurlöndin geti veitt aðstoð sín á milli en ekki eru taldar miklar líkur á slíku eins og er. 43 sjúklingar eru á Landspítala með covid, sex á gjörgæslu, innlagnafjöldinn er því nær bjartsýnustu spám en spálíkan Landspítala verður uppfært á morgun. 

Tæplega þrjátíu sjúklingar sem hafa lokið meðferð á Landspítala hafa verið sendir á aðrar heilbrigðisstofnanir. „Það munar um minna, betur má ef duga skal.“

Þannig þú kallar eftir hertum innanlandsaðgerðum? „Ég held það sé fátt annað í stöðunni miðað við að við séum með 1000-1100 smit á dag.“

holmfridurdf's picture
Hólmfríður Dagný Friðjónsdóttir
Fréttastofa RÚV