Sunnuhlíð verður heilsugæslustöð

Mynd: Sölvi Andrason / RÚV
Staðsetning hefur verið ákveðin fyrir tvær nýjar heilsugæslustöðvar á Akureyri og loka á þeirri sem nú er starfrækt. Forstjóri Heilbrigðisstofnunar Norðurlands gerir ráð fyrir að auðveldara verði að laða til sín starfsfólk þegar starfsaðstæður batna.

Heislugæslustöðin orðin úrelt

Í lok árs 2019 samþykkti Svandís Svavarsdóttir, þáverandi heilbrigðisráðherra, að við endurnýjun heilsugæsluþjónustu á Akureyri yrði gert ráð fyrir tveimur starfsstöðvum í bænum.

Heilsugæslan á Akureyri hefur verið í svokölluðu Amarohúsi í göngugötunni frá árinu 1985.  Húsnæðið var byggt með verslunarrekstur í huga og er aðgengi  alls ekki gott og stenst aðstaðan ekki nútímakröfur. Heilsugæslan er á fjórum efstu hæðum hússins.

Um 21.000 manns nýta sér þjónustu heilsugæslunnar á Akureyri og er núverandi húsnæði allt of lítið. Heilsugæslustöðvarnar sem stendur til að opna verða í sitthvorum bæjarhlutanum, annars vegar á tjaldstæðisreitnum við Þórunnarstræti og hins vegar í verslunarmiðstöðinni Sunnuhlíð.

Hefur gengið prýðilega að endurnýta eldra húsnæði

Jón Helgi Björnsson, forstjóri Heilbrigðisstofnunar Norðurlands segir að ekki hafi endilega verið lagt upp með það að opna heilsugæslu í gömlu húsnæði. „Nei, aðalatriðið fyrir okkur er að fá húsnæði sem er algjörlega hannað fyrir þessa starfsemi. Ef það er hægt að koma því þannig fyrir að hægt sé að koma því fyrir í eldra húsnæði þá erum við bara kát með það.“ 

Heilsugæslan verður á nánast allri efri hæð hússins ásamt fyrirhugaðri viðbyggingu en áfram verður önnur starfsemi á jarðhæðinni. Samtals verður heilsugæslan í Sunnuhlíð í 1700 fermetrum.

„Það stendur í rauninni til þess að taka allt innan úr húsnæðinu og í rauninni endurnýja það alveg frá A-Ö. Við höfum séð það annars staðar hjá Ríkinu þar sem menn hafa gert þetta og það hefur gengið prýðilega,“ segir Jón Helgi.

Vilja laða að starfsfólk

Framkvæmdir ættu að hefjast í vetur við Sunnuhlíð og mögulegt að hún verði opnuð í lok árs 2023. Bygging heilsugæslunnar við tjaldstæðið mun taka lengri tíma og verður hún líklega opnuð ári síðar.

Oft hefur verið rætt um skort á heimilislæknum, sérstaklega á landsbyggðinni. Jón Helgi segist ekki hafa áhyggjur af mönnun á nýju heilsugæslustöðvunum. 
„Nei í rauninni er þetta bara liður í því að auðvelda mönnun. Ef menn hafa góðar starfsaðstæður þá eru meiri líkur á því að við getum laðað starfsfólk til okkar.“