Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Segir niðurstöðuna dapurlega og mikil vonbrigði

Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon / RÚV
Grunnskólakennarar kolfelldu í dag kjarasamning við Samband íslenskra sveitarfélaga. Atkvæðagreiðslu um kjarasamninginn lauk á hádegi í dag og var niðurstaðan sú að nei sögðu tæp 74% og tæpur fjórðungur sagði já.

Aldís Hafsteinsdóttir, stjórnarformaður Sambands íslenskra sveitarfélaga segir að hún og þeir sem sátu í samninganefndinni fyrir hönd sveitarfélag hafi metið það sem svo að þarna væri góður samningur lagður á borðið.

„Þetta eru gríðarleg vonbrigði. Ég átti svo sannarlega ekki von á þessu og ekki okkar fólk og ekki síst sá hópur sem var í samningaviðræðunum fyrir hönd sveitarfélaga. Við höfðum trú á því að við hefðum náð þarna góðri lendingu, og þetta eru mjög mikil vonbrigði.“ segir Aldís.

Hún segir að af einhverjum ástæðum hafi kennarar ekki getað sætt sig við þennan samning og að samskipti samninganefndar grunnskólakennara við sína umbjóðendur hafi ekki verið þannig að þeir hafi verið sama sinnis. Stytting vinnutímans hafi verið mesta þrætueplið í viðræðunum án þess að hún viti hvort að það hafi orðið til þess að samningurinn var felldur. 

Varðandi styttingu vinnuvikunnar segir hún að það komi ekki til greina af hálfu sveitarfélaganna að stytta kennslutíma. Hún segir að í þeim samningi sem var felldur í dag hafi verið ,að hennar mati, ágætis lausn hvað það varðar. 

Næstu skref eru að ríkissáttasemjari kallar Félag grunnskólakennara og samninganefnd Sambands íslenskra sveitarfélaganna aftur að borðinu.

„Þá þurfa okkar viðsemjendur, grunnskólakennarar, að koma með það á borðið hvað það er sem olli því að þessi kjarasamningur var felldur því við töldum að viðsemjendur okkar væru af fullum heilindum að skrifa undir samning sem þau töldu að yrði samþykktur.“ segir Aldís. 

Hún segir þessa niðurstöðu dapurlega og að erfitt gæti reynst að halda samningaviðræðunum áfram þannig að allir verði sáttir. 

Lagt var upp með það í upphafi árs af hálfu stjórnvalda að hefja skólastarf að loknum jólafríi og gera allt til að halda skólunum opnum. Aldís var spurð að því hvort að sú áætlun væri að fara í vaskinn, en nokkrir skólar hafa þurft að loka vegna fjölda smita.

„Ég skil alveg þá ákvörðun ráðherra um að reyna í lengsu lög að halda skólastarfinu gangandi. Aftur á móti get ég tekið undir að það hafi kannski mátt hlusta betur á sóttvarnalækni þegar hann sagði að við hefðum átt að hafa skólana lokaða fyrstu 2 vikur þessa skólaárs. Við erum að sjá mikil smit og ég held eftir á að hyggja hefði það verið skynsamlegt því ég held að það sem er að gerast núna, það eru ekki bara fyrstu 2 vikurnar sem verða erfiðar, heldur verður allur janúar mánuður undir. Við erum á mjög erfiðum stað í covid bylgjunni. Það er þungt í grunnskólunum rétt eins og á mörgum öðrum stöðum.“ segir Aldís.

Rætt var við Aldísi í Speglinum. Það má heyra hér að ofan.