Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Sagan öll við Hagatorg

Mynd: RÚV / RÚV

Sagan öll við Hagatorg

13.01.2022 - 14:56

Höfundar

Hótel Saga hefur tekið á móti sínum síðasta gesti. Ríkissjóður og Félagsstofnun stúdenta keyptu húsið og ætla að leggja það undir starfsemi Háskólans og stúdentaíbúðir. Fyrrverandi starfsmenn og góðkunningjar hótelsins minnast þess með hlýjum hug og segja tímamótin ljúfsár.

Saga, eða Bændahöllin við Hagatorg er eitt þekktasta kennileiti borgarinnar, reist af stórhuga bændum sem vildu eiga athvarf í höfuðstaðnum. Hótelið var opnað árið 1962 og var ekkert til sparað við smíðina, enda gistu þar flestir erlendir þjóðhöfðingjar og önnur fyrirmenni sem komu til landsins um árabil.

Halldór H. Jónsson teiknaði húsið, sem ásamt viðbyggingu sem reis á 9. áratugnum, er um 20 þúsund fermetrar. Það taldi 236 hótelherbergi, tíu funda- og veislusali og tvo veitingastaði, auk annarrar þjónustu, svo sem hárgreiðslustofu, banka og pósthúss.    

Ingibjörg Ólafsdótttir hefur verið hótelstjóri í tæpan áratug. Hún kom fyrst til starfa á Sögu árið 1984 og hefur unnið fyrir Bændasamtökin nær óslitið síðan.

Hótel Saga hefur tekið á móti sínum síðasta gesti. Ríkissjóður og Félagsstofnun stúdenta keyptu húsið og ætla að leggja það undir starfsemi Háskólans og stúdentaíbúðir. Fyrrverandi starfsmenn og góðkunningjar hótelsins minnast þess með hlýjum hug og segja tímamótin ljúfsár.
 Mynd: Kastljós - RÚV
Ingibjörg Ólafsdóttir.

„Þetta er heimur út af fyrir sig. Það voru 2000 manns í húsi þegar mest lét, þá voru öll rými fyllt. En það var ekkert óeðlilegt að hér væru um 1200-1500 manns á góðum degi. Það sem gerir líka þessa sögu er að Konráð Guðmundsson var hér hótelstjóri og framkvæmdastjóri í mjög mörg ár. Hann er lærifaðir mjög margra. Hann var ótrúlegur maður og einn af lærifeðrum mínum.“ 

Á Sögu er eitt rómaðasta veitingahús landsins - Stjörnusalurin,  eins og það heitir eftir skreytingum Lothars Grundt innanahúsarkitekt - en gengur jafnan undir nafninu Grillið. Trausti Víglundsson var veitingastjóri á Sögu í yfir þrjátíu ár.  

„Þetta er HÓTELIÐ með stórum stöfum. Hér hefur sagan verið skrifuð í íslenskri veitingasögu. Hér hafa framreiðslumenn, matreiðslumenn og hótelstjórar orðið til. Konráð heitinn lagði mikla áherslu á að hafa allt faglegt og hér var góð var frá bændum og matreiðslumenn frá Evrópu sem komu sem gestakokkar.“ 

Hótel Saga hefur tekið á móti sínum síðasta gesti. Ríkissjóður og Félagsstofnun stúdenta keyptu húsið og ætla að leggja það undir starfsemi Háskólans og stúdentaíbúðir. Fyrrverandi starfsmenn og góðkunningjar hótelsins minnast þess með hlýjum hug og segja tímamótin ljúfsár.
 Mynd: Kastljós - RÚV
Trausti Víglundsson.

Bændahöllin var, eins og nafnið gefur til kynna, stolt bænda. Þar voru líka skrifstofur Bændasamtakanna. Á hverju ári fjölmenntu bændur á búnaðarþing, sem stóð vikum saman, og leið þá jafnan eins og heima hjá sér á Hótel Sögu.   

„Þegar maður hugsar til baka hversu gríðarlegt félagslegt afrek það er að hafa byggt þetta hús,“ segir Haraldur Benediktsson, sem var formaður Bændasamtakanna 2004-2013. „Þessi bygging á langan aðdraganda og langa sögu. Mig minnir að fyrsta samþykkt Búnaðarþings um byggingu húsnæðis gert ráð fyrir veglegu skrifstofuhúsnæði með gistiaðstöðu og hesthúsi. En síðan er Hótel Saga byggð og var mikil upplyfting fyrir ferðaþjónustu á Íslandi, veitingarekstur og skemmtanahald og spennandi mannlíf á þessu svæði.“ 

Súlnasalurinn var lengi miðja skemmtanalífsins í Reykjavík og var Ragnar Bjarnason hljómsveitarstjóri í hartnær tvo áratugi. Þuríður Sigurðardóttir söng með Ragga í  Súlnasalnum um árabil og Vernharður Linnet skipulagði þar ótal djasstónleika.

„Þetta er eftirminnilegur tími, það voru glæsilegar veislur hér, þjóðhöfðingjar, og svo hefðbundin böll. Ég var svo lánsöm að komast í samband við alla bestu hljóðfæraleikara Íslands. Fólk beið í biðröð hér fyrir utan til að komast inn. Þetta var rosalega vinsæll.“ 

Við byrjuðum með Djassvakningu og vorum með alla stóru tónleikana hér, nema Niels-Henning Ørsted Pedersen, sem var vinsælasti erlendi djassleikarinn á Íslandi og þurftum að vera með hann í Háskólabíói. En svo langaði hann að spila á Sögu, hann bjó alltaf hér. Við héldum eina tónleika við gífurlega aðsókn. Og alltaf þegar Nils spilaði hérna eftir það var troðið.“ 

Hótelið varð gjaldþrota síðasta haust eftir rekstrarerfiðleika í kjölfar heimsfaraldursins. Eftir nokkra óvissu um framhaldið ákváðu ríkið og Félagsstofnun stúdenta að kaupa húsið og leggja það undir starfsemi háskólans og  stúdentaíbúðir. Þessa dagana er verið að undirbúa umskiptin. Þetta eru ljúfsár tímamót fyrir hollvini hússins.   

„Þetta er búið að vera erfitt síðastliðin tvö ár að hugsa um þetta,“ segir Trausti. „En síðustu daga þegar þetta var ákveðið hugsaði ég: Jæja, þetta er gott, þetta er háskólaumhverfið, Þjóðminjasafnið, Hús Vigdísar, hvað viljum við betra? Það er flott að við getum innsiglað þetta hér í Vesturbænum.“ 

Ingibjörg segir ánægjulegt að Háskólinn ætli að reyna að halda í söguna og menninguna. Undir það tekur Isabel Alejandra Díaz.  

„Þetta boðar ný tækifæri til að búa til gott samfélag og líka halda áfram að skrifa söguna. Við erum að skapa eitthvað nýtt sem verður hluti af sögunni.“ 

Tengdar fréttir

Stjórnmál

Skrifa undir samning um kaup á Hótel Sögu

Innlent

Um þrír milljarðar í viðhald og endurbætur á Hótel Sögu

Ferðaþjónusta

Kaflaskil á Hótel Sögu