Bændahöllin var, eins og nafnið gefur til kynna, stolt bænda. Þar voru líka skrifstofur Bændasamtakanna. Á hverju ári fjölmenntu bændur á búnaðarþing, sem stóð vikum saman, og leið þá jafnan eins og heima hjá sér á Hótel Sögu.
„Þegar maður hugsar til baka hversu gríðarlegt félagslegt afrek það er að hafa byggt þetta hús,“ segir Haraldur Benediktsson, sem var formaður Bændasamtakanna 2004-2013. „Þessi bygging á langan aðdraganda og langa sögu. Mig minnir að fyrsta samþykkt Búnaðarþings um byggingu húsnæðis gert ráð fyrir veglegu skrifstofuhúsnæði með gistiaðstöðu og hesthúsi. En síðan er Hótel Saga byggð og var mikil upplyfting fyrir ferðaþjónustu á Íslandi, veitingarekstur og skemmtanahald og spennandi mannlíf á þessu svæði.“
Súlnasalurinn var lengi miðja skemmtanalífsins í Reykjavík og var Ragnar Bjarnason hljómsveitarstjóri í hartnær tvo áratugi. Þuríður Sigurðardóttir söng með Ragga í Súlnasalnum um árabil og Vernharður Linnet skipulagði þar ótal djasstónleika.
„Þetta er eftirminnilegur tími, það voru glæsilegar veislur hér, þjóðhöfðingjar, og svo hefðbundin böll. Ég var svo lánsöm að komast í samband við alla bestu hljóðfæraleikara Íslands. Fólk beið í biðröð hér fyrir utan til að komast inn. Þetta var rosalega vinsæll.“
Við byrjuðum með Djassvakningu og vorum með alla stóru tónleikana hér, nema Niels-Henning Ørsted Pedersen, sem var vinsælasti erlendi djassleikarinn á Íslandi og þurftum að vera með hann í Háskólabíói. En svo langaði hann að spila á Sögu, hann bjó alltaf hér. Við héldum eina tónleika við gífurlega aðsókn. Og alltaf þegar Nils spilaði hérna eftir það var troðið.“
Hótelið varð gjaldþrota síðasta haust eftir rekstrarerfiðleika í kjölfar heimsfaraldursins. Eftir nokkra óvissu um framhaldið ákváðu ríkið og Félagsstofnun stúdenta að kaupa húsið og leggja það undir starfsemi háskólans og stúdentaíbúðir. Þessa dagana er verið að undirbúa umskiptin. Þetta eru ljúfsár tímamót fyrir hollvini hússins.
„Þetta er búið að vera erfitt síðastliðin tvö ár að hugsa um þetta,“ segir Trausti. „En síðustu daga þegar þetta var ákveðið hugsaði ég: Jæja, þetta er gott, þetta er háskólaumhverfið, Þjóðminjasafnið, Hús Vigdísar, hvað viljum við betra? Það er flott að við getum innsiglað þetta hér í Vesturbænum.“
Ingibjörg segir ánægjulegt að Háskólinn ætli að reyna að halda í söguna og menninguna. Undir það tekur Isabel Alejandra Díaz.
„Þetta boðar ný tækifæri til að búa til gott samfélag og líka halda áfram að skrifa söguna. Við erum að skapa eitthvað nýtt sem verður hluti af sögunni.“