Rættist úr árinu 2021 í ferðaþjónustunni

13.01.2022 - 10:44
Mynd: Bjarni Rúnars / RÚV
Brottfarir erlendra farþega voru 688 þúsund á árinu 2021.Það er viðlíka fjöldi og árið 2012. Þegar mest lét árið 2018 voru brottfarir erlendra ferðamanna rúmlega 2,3 milljónir. Þrátt fyrir þetta mikla hrap var árið 2021 nokkuð gott að mati Skarphéðins Bergs Steinarssonar, ferðamálastjóra.

Þetta sýna nýjar tölur Ferðamálastofu. Eftir dapra mánuði í upphafi árs rættist úr eftir því sem leið á árið.

„Það var lítið sem ekkert að gera á fyrri hluta ársins, en þetta tók við sér í júní og var góður stígandi þannig að árið klárast í tæpum 700.000 brottförum þannig að það má segja að það hafi ræst úr því miðað við hvernig það fór af stað.“ segir Skarphéðinn.

En nú í lok ársins reis bylgjan hratt, funduð þið fyrir því?

Já já, við sjáum það og heyrum það en samt er eins og jól og áramót hafi sloppið til en ég held að það séu sárafáir ferðamenn í landinu núna. Það má gera ráð fyrir því að janúar og kannski febrúar verði mjög lélegir mánuðir en svo ætti þetta að fara að rísa aftur.“

Ef við rínum í tölurnar frá seinasta ári, er hægt að greina eitthvað mynstur hvaðan fólk er að koma helst? 

Í grófum dráttur er þetta eins og við vorum að sjá fyrir covid, að því undanskildu að Bretar eru með heldur öðrum hætti en áður. Það skýrist að því að öndvert við aðrar þjóðir þá koma Bretar hingað frekar að vetrarlagi, vor og haust og vetur. Þar sem það voru sárafáir ferðamenn á fyrri hluta ársins þá skýrir það hvers vegna er svona mikill samdráttur í komum Breta og hvers vegna Bretar eru fjölmennastir í desember. En að öðru leyti, hvernig þetta liggur yfir árið er með nokkuð hefðbundnum hætti, hlutfallslega Bandaríkjamenn svipaðir, Þjóðverjar fjölmennir þannig að þetta er svipað.“

Eruði með upplýsingar um brottfarir íslendinga, eru þeir meira á faraldsfæti núna, þ.e.a.s. í fyrra en árið þar á undan?

Já þeir eru heldur fleiri, enda mátti gera ráð fyrir því og stærsti hluti af brottförum íslendinga er á seinni hluta ársins eins og komur erlendra ferðamanna og þá má svo sem gera ráð fyrir að sú þróun haldi áfram að þeir haldi áfram að ferðast erlendis. Það hefur líka áhrif á innlendu ferðaþjónustuna því að Íslendingar voru nokkð fyrirferðamiklir í ferðalögum um landið í sumar sérstaklega og svosem á öðrum árstíma líka umfram það sem hefur verið þannig að ef Íslendingar eru að auka ferðalög sín til útlanda og við erum ekki að fá samsvarandi ferðamenn til landsins erlendis frá þá mun það hafa samdráttaráhrif. En ég á ekki von á því að það verði sú þróun.“ 

Nú liggja eflaust margir sem starfa í ferðaþjónustunni undir feldi og reyna að skipuleggja árið framundan. Hvaða væntingar hafið þið til ársins 2022?

Af þessum omíkron mánuði undanskildum þá hefur verið stígandi í fjölda ferðamanna alveg frá því að landið var opnað í júní. Þannig að við erum að sjá alltaf stærra og stærra hlutfall erlendra ferðamanna miðað við það sem var í samsvarandi mánuði fyrir covid. Og við gerum ráð fyrir því að á meðan omíkron gengur yfir verði eitthvað hikst á þessari þróun en hún muni halda áfram þegar þessu er lokið í vor, vonandi í mars, og ef ekki í mars þá í byrjun sumar og ég held að þetta sé almennt það sem menn gera ráð fyrir í ferðaþjónustu og eru að undirbúa sig fyrir.“ segir Skarphéðinn.

2022 verður svipað og 2015

Greiningardeildir bankanna og fleiri gera ráð fyrir að ferðamenn verði á bilinu 1,3 til 1,5 milljónir á þessu ári sem er svipað og árin 2015 og 16. 

„Og með þeim fjölda þá verður þetta alveg þokkalegt ár. Ef litið er á ferðalög á árinu 2021, dvalartím hefur verið að lengjast. Og ef við bætum því ofan á, ef það myndi haldast þá væri mun minni munur á því sem við vorum að sjá 2021 og var fyrir covid.“

Er það ekki það sem hefur verið markmið ferðaþjónustunar? Að lengja dvöl fólks þegar það kemur og eins yfir árið, hvernig hefur það gengið?

„Okkur hefur gengið mjög vel að dreifa yfir árið. Það er minni árstíðasveifla, eða var það fyrir covid, minni árstíðasveifla hér í ferðaþjónustu en í flestum öðrum löndum. Okkur hefur gengið mjög vel að laða að ferðamenn á veturna. Það er mun minni munur á sumri og þeim árstíðum sem minnst er um að vera en víðast hvar annarsstaðar. Þannig að okkur hefur gengið vel í því. Á þessu ári var dvalarlengdin umtalsvert lengri sem þýðir að ferðamenn skilja meira eftir sig og það er raunin að kreditkortavelta á ferðamenn hefur aukist, það skýrist fyrst og fremst af lengd dvalartíma. Bandaríkjamenn t.d. voru að dveljast hér ríflega tveimur dögum lengur að jafnaði og það er umtalsverð búbót fólgin í því.“ segir Skarphéðinn.

Skuldastabbinn hverfur ekki

En er viðbúið að ferðaþjónustufyrirtæki renni saman í stærri einingar sökum rekstrarvanda vegna faraldursins?

Þetta hefur ekki gerst ennþá. Það er svo sem búið að vera að bíða eftir því í nokkur ár að það verði meiri samruni í ferðaþjónustu. Það sem einkennir hana er mörg lítil fyrirtæki, mög fá stærri fyrirtæki. Ef litið er til þróuna í öðrum atvinnugreinum og til annara landa þá er þetta þróun sem má búast við að verði hér eins og annarsstaðar að við sjúm færri fyrirtæki og slíkan samruna. Þetta hefur ekki orðið en það má gera ráð fyrir því að það muni breytast. Hvort að það komi út úr covid, við verðum að sjá til með það en afkoma ferðaþjónustunar í covid hefur verið hörmung. Ferðaþjónustan hefur hins vegar sýnt mikla aðlögun. Þegar covid byrjar þá hrynja tekjur ferðaþjónustufyrirtækjana og það er magnað hvernig ferðaþjónustunni tekst að bregðast við því með því að draga úr kostnaði. Þarna komu stuðningsaðgerðir stjórnvalda mjög sterkt inn. Með þessari aðlögun hefur reksturinn ekki verið að tapa svo miklu á árinu 2021 samanborið við 2020 og samanborið við það sem við það sem við höfðum getað ætlað. Það hafa hins vegar safnast saman skuldir og það er vandamál ferðaþjónustunnar núna að vinna á þeim skuldastabba.“

En hvernig horfa menn til aðgerða ríkisins, er nauðsynlegt að þeirra njóti við áfram eða sjá menn fyrir sér að þær lognist út af, og hvernig hefur aðsóknin verið í þær undanfarið?

Ferðaþjónustan hefur nýtt sér betur en aðrar atvinnugreinar stuðningsaðgerðir stjórnvalda. Kannski vegna þess að áföllin hafa líka verið meiri þar. Hvort og þá hvernig verður framhald á því, það er verið að skoða það í stjórnkerfinu. Sú skýrsla sem við skiluðum af okkur í síðustu viku varðandi fjárhag ferðaþjónustunnar þá eru stærstu vandamálin fólgin í skuldunum. Mér er til efs að ríkið fari að greiða skuldir fyrirtækjanna. Það sé eðlilegt að ef það séu stuðningsaðgerðir þá sé það með svipuðum hætti og gert var að styðja við það að halda ráðningarsambandi eða halda fyrirtækjum á floti, hafi möguleika að greiða lágmarkskostnað og annað slíkt en fjármálafyrirtæki og eigendur verða þá frekar að koma að vinna að skuldastöðunni og fjárhagsstöðunni.“

Þannig að það gæti komið seinna, það uppgjör á milli ferðaþjónustufyrirtækjanna og skuldaeigenda og þá gæti jafnvel orðið hryna gjaldþota í greininni?

Því miður mun örugglega koma til þess að einhver fyrirtæki hætti starfsemi en það er engin ástæða til að spá einhverjum fjöldagjaldþrotum. Þessi vinna okkar í greiningu á fjárhagsstöðunni gefur ekki ástæðu til þess. En það þarf að taka á skuldum margra fyrirtækja. Rekstur er lífvænlegur en skuldastaða er umfram það sem má gera ráð fyrir því að fyrirtækin geti staðið undir. Við þær kringumstæður sem þau hafa búið við í covid er það ekkert óeðlilegt. Þau hafa fengið lánað fyrir skattgreiðslum, hafa þurft að fjármagna tímabundin taprekstur, fresta afborgunum, vaxtagreiðslum. það er ýmistleg svoleiðiss þannig að það er ekki óeðlilegt þó að skuldir hafi aukist en það þarf að vinna á þeim, borga þær til baka.“ segir Skarphéðinn.

Betra að fá harðar aðgerðir nú en í sumar

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir sagði á upplýsingafundi í gærmorgun að hann íhugi að leggja til hertar aðgerðir fyrir helgi. 

„Auðvitað leggst það ekki vel í ferðaþjónustuna. Það er þó skárra að slíkar takmarkanir séu á þessum tíma heldur en ef þær hefðu komið á þeim tíma sem ferðaþjónustan hefur stærstan hluta tekna sinna af. Það skiptir t.d. miklu máli fyrir ferðaþjónustuna að þetta sé farið að jafna sig í mánuðum eins og mars sem eru sterkir og hvað þá þegar það kemur inn í sumarið og það er allt sem bendir til þess að það verði þannig.“ segir Skarphéðinn.

Rætt var við hann í Speglinum. Pistilinn má heyra í spilaranum hér að ofan.