Óveðurslægðin Gyða veldur usla í Noregi

13.01.2022 - 00:11
Erlent · Náttúra · Aurskriður · Flóð · Illviðri · Noregur · úrhelli · Evrópa · Umhverfismál · Veður
Óveðurslægðin Gyða olli usla í Vestur- og miðhluta Noregs dagana 11. til 13. janúar 2022. Um 70 manns var gert að yfirgefa heimili sín í bænum Molde i Möre og Römsdal.
 Mynd: BJØRN M. ØVERÅS
Foráttuveður hefur gengið yfir vesturströnd og miðhluta Noregs í dag og enn er varað við flóðum og skriðuföllum í nótt. Afar hvasst er á þeim slóðum og úrhellisrigning.

Um sjötíu manns þurftu að yfirgefa heimili sín í bænum Molde í Møre og Romsdal-fylki vegna vatnavaxta í ánni Dokkelva og skriðuhættu.

Þess eru dæmi að ár hafi flætt yfir bakka sína og valdið truflunum á umferð, skriður hafa fallið og nokkuð tjón orðið á eignum. Eins hefur ferjusiglingum verið frestað vegna veðursins.

Gefnar voru út rauðar viðvaranir vegna óveðurslægðarinnar Gyðu og samkvæmt fréttum á vef norska ríkisútvarpsins hefur Veðurstofan aldrei áður varað við jafn mikilli skriðuhættu. 

Farþegaskip Hurtigruten Fridtjof Nansen steytti á skeri síðustu nótt í Norðfirði, miðja vegu milli Álasunds og Björgvinjar. 398 voru um borð, 233 farþegar og 165 manna áhöfn, en engan sakaði.

markusthth's picture
Markús Þ. Þórhallsson
Fréttastofa RÚV