Ópera um nef

Mynd með færslu
 Mynd: Wikimedia Commons

Ópera um nef

13.01.2022 - 15:47

Höfundar

Rússneska tónskáldið Dmitri Sjostakovitsj samdi gamanóperuna „Nefið“ (Hoc Nos) á árunum 1927-28, en hún er byggð á háðsádeilusögu eftir Nikolaí Gogol. Óperan „Nefið“ verður flutt á Óperukvöldi útvarpsins, fim. 13. janúar 2022 kl. 19.00.

Ópera um nef

Óperan gerist í Pétursborg og hefst á inngangi þar sem rakarinn Ivan Jakovlevitsj er að raka embættismanninn Kovaljov. Daginn eftir er rakarinn að borða morgunverðinn sinn og honum bregður illa, sem von er, þegar hann finnur nef í brauðinu sínu. Konan hans, Praskovja, verður bálreið og segir að hann hafi greinilega óvart skorið nefið af einhverjum viðskiptavini sínum. Hún heimtar að hann losi þau við nefið eins og skot og Jakovlevitsj flýtir sér út. Það gengur erfiðlega hjá honum að koma af sér nefinu, því hann er sífellt að rekast á einhverja kunningja sína. Loks tekst honum að henda nefinu í ána Nevu sem rennur í gegnum Pétursborg. En lögreglumaður hefur séð til hans og fer með hann á lögreglustöðina til yfirheyrslu.

Nef verður ríkisráðgjafi

Á sama tíma vaknar Kovaljov í rúmi sínu og verður meir en lítið hrelldur þegar hann uppgötvar að nefið er horfið af honum. Hann fer út að leita að nefinu og sér til undrunar kemur hann auga á nefið sem er nú á stærð við fullorðinn mann og komið í einkennisbúning. Nefið fer inn í Kazan-dómkirkjuna, sem er þekkt kirkja í Pétursborg, og fer að biðjast þar fyrir af mikilli guðrækni. Kovaljov reynir að koma nefnu í skilning um að það sé nef og eigi að vera á andlitinu á sér, en nefið bregst hið versta við, segist vera ríkisráðgjafi, með hærri tign en Kovaljov sjálfur, og hafi því ekkert við hann að tala. Að svo mæltu hraðar það sér burt.

Auglýst eftir nefinu

Kovaljov leitar til lögreglunnar, en lögreglustjórinn er ekki við. Þá fer hann á skrifstofu dagblaðs til þess að auglýsa eftir nefinu, en þegar skrifstofumaður blaðsins heyrir um erindi hans segir hann að blaðið geti ekki, orðstírs síns vegna, tekið við svona auglýsingu. Kovaljov er miður sín og skrifstofumaðurinn reynir að hressa hann við með því að bjóða honum neftóbak. Eins og nærri má geta móðgast Kovaljov og fer. Heima hjá honum er Ivan, þjónninn hans, að spila á balalaiku. Kovaljov rekur hann út og harmar ógæfu sína.

Lögreglan fer að leita að nefinu. Á lestarstöð sjá lögreglumenn nefið og þeim tekst loks að ná því. Þeir lemja það þangað til að minnkar niður í sína fyrri stærð, pakka þvi inn og afhenda Kovaljov það. Hann er himinglaður í fyrstu, en honum til vonbrigða getur hann ekki fest nefið aftur á sig. Morguninn eftir, þegar Kovaljov vaknar, er nefið hins vegar komið á hann aftur. Hann dansar polka af gleði og gengur svo hinn ánægðasti með sitt nef eftir aðalgötu borgarinnar meðan borgarbúar ræða þennan einstaka atburð.

Flytjendur í sýningu Þjóðleikhússins í München

Óperan var hljóðrituð á sýningu Þjóðleikhússins í München 30. okt. 2021.

Kovaljov: Boris Pinkhasovich.

Jakovlevitsj: Sergei Leiferkus.

Nefið: Anton Rositskiy.

Praskovja: Laura Aikin.

Lögreglumaður: Andrey Popov.

Ivan, þjónn Kovaljovs: Sergei Skorokhodov.

Skrifstofumaður á dagblaði: Genaddy Bezzubenkov.

Þjónn greifynju: Sean Michael Plumb.

Í hlutverkum þjóna, lögreglumanna og annarra sem við sögu koma eru Martin Snell og Piotr Micinski.

Bæverska ríkishljómsveitin leikur; stjórnandi er Vladimir Jurowski.

Texti óperunnar er eftir tónskáldið sjálft, Yevgeni Zamyatin, Georgy Ionin og Alexander Preis, en hann er byggður á samnefndri háðsádeilusögu eftir Nikolaí Gogol frá árinu 1836.