Lífið á jörðinni

13.01.2022 - 15:21
Mynd:  / 
Fjallað var um breytingar á líffræðilegri fjölbreytni á jörðinni í pistli í Samfélaginu á Rás 1. ---------------------------

Hafdís Hanna Ægisdóttir les:

Lífið og fjölbreytnin

Þau ykkar sem komin eru hátt á fimmtugsaldurinn eða eru eldri munið eflaust eftir því þegar þættir David Attenborough „Lífið á Jörðinni“ voru sýndir í sjónvarpinu í kringum 1980. Samnefnd bók kom svo út á íslensku árið 1982 og er til á mörgum heimilum. Þættirnir voru sýndir um allan heim og vöktu mikla athygli enda bæði fróðlegir og skemmtilegir. Saga lífríkisins var útskýrð í samhengi við jarðsöguna og sýnd var sú mikla fjölbreytni sem einkennir lífið á Jörðinni. Þrátt fyrir að þættirnir séu barns síns tíma þegar kemur að tæknivinnslu og kvikmyndatöku þá voru þeir tímamótaverk og heilluðu og höfðu áhrif á fjölda fólks – mig þar á meðal. Frægasta atriðið úr þáttunum er án efa þegar Attenborough situr með fjallagórillum í Rwanda – ógleymanlegt augnablik í kvikmyndasögunni.

Já, lífið á Jörðinni er einstakt og fjölbreytni þess engu lík. Þegar landsmenn horfðu á þættina eða lásu bókina „Lífið á Jörðinni“ í byrjun 9. áratugarins hugsa ég að fæstir hafi séð fyrir þá ógn sem nú steðjar af lífi Jarðarinnar – á fjölbreytni lífs á Jörðinni – oftast kallað líffræðileg fjölbreytni eða biodiversity á ensku. Síðan þá hefur mikið vatn runnið til sjávar.

En hvað er líffræðileg fjölbreytni og af hverju er hún mikilvæg? Þegar við tölum um líffræðilega fjölbreytni (sem er stundum nefnd líffræðilegur fjölbreytileiki eða lífbreytileiki – já ég veit – þetta er ekki alltaf einfalt), þá erum við í raun að tala um fjölbreytileika alls lífríkisins; bæði fjölda tegunda og breytileika innan tegunda. Við sem tilheyrum tegundinni Home sapiens erum til að mynda ólík, bæði þegar kemur að erfðum og útliti. Það sama má segja um t.d. bleikjuna í Þingvallavatni, birkið í skóginum og þorskinn í sjónum. En líffræðileg fjölbreytni er ekki bara fjöldi tegunda og breytileiki innan þeirra, heldur nær hún einnig til þeirra vistkerfa sem þessar lífverur mynda og eru hluti af, á landi, í sjó og í ferskvatni.

Nauðsynleg þjónusta vistkerfa

En skiptir líffræðileg fjölbreytni einhverju máli? Svarið er já – hún skiptir mjög miklu máli. Mikilvægi líffræðilegrar fjölbreytni kemur til að mynda glögglega fram í nýlegri skýrslu Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD) þar sem fram kemur að hnignun hennar sé talin ein helsta ógn sem mannkyn stendur frammi fyrir. Líffræðileg fjölbreytni er afar mikilvæg til að vistkerfi Jarðarinnar geti starfað eðlilega, fyrir framleiðslu þeirra og viðnámsþrótt sem er hugtak sem er mikið notað í tengslum við aðlögun að loftslagsbreytingum. Viðnámsþróttur vísar í getu lífríkisins til að aðlaga sig að breyttum og nýjum aðstæðum, eins og auknum þurrki, hita eða raka. Það gefur því auga leið að verndun og endurheimt líffræðilegar fjölbreytni er afar mikilvæg til að takast á við loftslagsbreytingar og að aðgerðir til að takast á við þessar tvær stærstu áskoranir mannkyns þurfa að haldast í hendur og styðja hvor við aðra.

Gleymum því heldur ekki að líffræðileg fjölbreytni leggur líka grunn að þeirri þjónustu sem vistkerfin veita okkur og við tökum oftar en ekki sem sjálfsögðum hlut. Þá er ég að vísa í fæðuna sem við fáum fá vistkerfum lands og sjávar, hreint drykkjarvatn, byggingarefni í mannvirkjagerð og lyf sem eiga uppruna sinn í náttúrunni. Til að nefna eitt áhugavert dæmi þá væri matvælaframleiðsla víða um heim í verulegum vandræðum ef frjóberum, líkt og býflugum og hunangsflugum, myndi fækka verulega eða deyja út - vegna þess að þá eru flugurnar ekki lengur til staðar til að frjóvga plöntur sem við ræktum til matvælaframleiðslu.

Fjárhagslegt virði þjónustu þessara mikilvægu frjóbera við nytjaplöntur er líka gífurlega mikið og hefur verið metin á heimsvísu á 25- 37 þúsund milljarða íslenskra króna á ári. Í rauninni eru þetta einfalt - án fjölbreytts lífríkis Jarðarinnar værum við ekki hér.

Aðsteðjandi hætta

En er lífið á Jörðinni í hættu? Já, því miður. Ástandi lífs á Jörðinni hefur hnignað mikið á síðustu 100 árum, hnignunin er mun hraðari en áður og milljón plöntu- og dýrategunda eiga það á hættu að hverfa innan fárra áratuga. Ástæður þess að líffræðileg fjölbreytni hefur minnkað svona mikið er ofnýting okkar mannanna á vistkerfum á landi og í sjó. Þar á eftir koma bein nýting á lífverum Jarðarinnar, mengun, loftlagsbreytingar og áhrif framandi ágengra tegunda en ágeng tegund eru framandi lífvera í vistkerfi sem hefur neikvæð áhrif á aðrar tegundir þar. Ágeng tegund dreifist alla jafnan hratt af eigin rammleik og breytir þeim vistkerfum sem fyrir eru á viðkomandi svæðum. Hún er sömuleiðis líkleg til að valda rýrnun líffræðilegrar fjölbreytni, efnahagslegu eða umhverfislegu tjóni og/eða að vera skaðleg heilsu manna. Dæmi um ágengar tegundir á Íslandi eru minkur, lúpína og spánarsnigill.

Ef líffræðileg fjölbreytni er svona mikilvæg, ættum við þá ekki bæta nýjum tegundum í vistkerfi sem hafa fáar tegundir? Svarið er nei, alls ekki. Það er eðlilegt ástand að tegundafjöldi sé ólíkur milli lífbelta enda eru aðstæður í hitabeltinu allt aðrar en til að mynda á fjalla- eða heimskautasvæðum. Tegundafjöldi einn og sér segir ekki alla söguna og þó vistkerfi heimskautasvæða hafi mun færri tegundir en Amazon regnskógurinn þá getur það samt sem áður verið í góðu ástandi og ekki æskilegt að bæta við fleiri tegundum. Í öllum heilbrigðum vistkerfum Jarðar er viðkvæmt jafnvægi þar sem lífverur hafa þróast saman, sumar í mikilli samkeppni við aðrar tegundir og aðrar í lítilli samkeppni. Jafnvel litlar breytingar á þessu jafnvægi geta haft slæm áhrif á lífríkið og raskað mikilvægu jafnvægi í náttúrunni. Jafnvægið getur bæði raskast ef bætt er við framandi tegundum sem geta orðið ágengar og þegar tegundum er útrýmt, t.d. rándýrum sem eru hátt í fæðukeðjunni eins og úlfar, refir og hákarlar.

Staðan hér heima

Færum okkur nú til Íslands. Hver einkennir íslenska náttúru og líffræðilega fjölbreytni á Íslandi? Þetta er vel útskýrt í stefnulýsingu samstarfsvettvangs um líffræðilega fjölbreytni á Íslandi – BIODICE, þar sem fram kemur sameiginlegt álit, framtíðarsýn og ráðleggingar fjölmargra líffræðinga á Íslandi. Stefnulýsinguna má finna á vefsíðu Biodice, biodice.is.

Ísland er um margt einstakt þegar kemur að líffræðilegri fjölbreytni, og ekki síst þegar leitað er svara um uppruna, eðli og mikilvægi hennar. En hvað veldur því? Ég ætla að nefna það helsta. Ísland er ung eyja í Norður-Atlantshafi og aðeins um 10 þúsund ár eru frá síðasta jökulskeiði. Hér mætast heitir og kaldir hafstraumar sem valda skörpum hitaskilum á landi og í sjó. Í Íslandi skapa eldvirkni og jarðskorpuhreyfingar einstök og fjölbreytt búsvæði fyrir lífríki. Ný búsvæði myndast einnig hratt vegna hopandi jökla og skapa tækifæri fyrir nýjar tegundir að hasla sér völl og fyrir ný vistkerfi til að myndast. Vegna þess hve Ísland er einangrað í úthafinu og þess hve stuttur tími er liðinn frá síðasta jökulskeiði eru hér fremur fáar tegundir miðað við meginlöndin og margar tegundanna hafa þróast öðruvísi hér en annars staðar. Hér eru fjölbreytt búsvæði og lítil samkeppni milli tegunda sem býr til góðar aðstæður fyrir þróun tegunda, sem hefur leitt til fjölda ólíkra stofna og afbrigða. Má þar t.d. nefna bleikjuna í Þingvallavatni þar sem fjögur afbrigði hafa þróast út frá aðeins einni tegund á einungis 10 þúsund árum. Þetta eru sílableikja, kuðungableikja, murta og dvergbleikja, en þær eru misstórar og eiga sér ólík búsvæði. Einnig hefur mikil fjölbreytni fundist innan fleiri tegunda, eins og hornsílis, birkis og víðis. Í sjónum kringum Ísland eru stórir og verðmætir fiskistofnar eins og við þekkjum vel sem fiskveiðiþjóð og hafið í kringum Ísland er einnig afar mikilvægt fyrir ýmsa fugla og sjávarspendýr sem staldra við í styttri tíma og eru svokallaðar far – eða umferðartegundir. Dæmi um slíka tegund er margæsin sem er fargestur á Íslandi vor og haust.

Ég myndi segja að skilningur á mikilvægi líffræðilegrar fjölbreytni á Íslandi fyrir náttúru, samfélög og efnahag sé á uppleið þó betur megi ef duga skal. Stýrihópur á vegum íslenskra stjórnvalda vinnur nú að nýrri stefnu og aðgerðaráætlun um vernd líffræðilegrar fjölbreytni en núverandi stefna var sett árið 2008 og núverandi aðgerðaráætlun árið 2010 sem er langur tími í síbreytandi heimi þar sem þekkingu fleygir fram. Og í nýjum stjórnarsáttmála kemur fram að lokið verði við endurskoðun á stefnunni um líffræðilega fjölbreytni. Sveitarfélög og landeigendur skipa einnig stórt hlutverk þegar kemur að stefnumótun og aðgerðaráætlununum um líffræðilega fjölbreytni og verð ég að fá að hrósa Reykjavíkurborg sem sett hefur sér bæði stefnu og aðgerðaráætlun í málaflokknum.

Maður á tíræðisaldri ræður komandi kynslóðum heilt

Í byrjun þessa pistils sagði ég frá „Lífinu á jörðinni“ - þáttaröð og bók eftir David Attenborough sem komu út í kringum 1980. Fjörutíu árum og mörgum þáttaröðum síðar kom út ný mynd eftir Attenborough sem bar nafnið „Lífið á plánetunni okkar“ (Life on our Planet). Myndin er vitnisburður lífsreynds 94 ára öldungs sem horfir til baka á 70 ára langan feril sinn við að ferðast um Jörðina, skoða og miðla undrum náttúrunnar beint inn í stofu til okkar. Já, myndin er vitnisburður hans um ástand Jarðarinnar og hvað við þurfum að gera ef ekki á illa að fara og í henni er mikið fjallað um mikilvægi líffræðilegrar fjölbreytni– mikilvægi lífsins á Jörðinni.

Rannsóknir okkar færasta vísindafólks segja sömu sögu. Mikilvægi þess að vernda og endurheimta fjölbreytni lífs á Jörðinni er ekki bara mikilvægt, heldur lífsnauðsynlegt – fyrir vistikerfin, samfélög manna, efnahaginn og framtíð okkar á Jörðinni.

Hlúum að lífinu – fjölbreytni þess og fegurð – fyrir okkur og komandi kynslóðir.

 

thorhildurg's picture
Þórhildur Guðrún Ólafsdóttir
dagskrárgerðarmaður