Frakkar herða reglur gagnvart óbólusettum

epaselect epa09680490 A woman wearing a face mask walks near the Eiffel Tower in Paris, France, 12 January 2022. COVID-19 cases have recorded its highest number daily since the start of the pandemic in France.  EPA-EFE/Mohammed Badra
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Frönsk stjórnvöld herða reglur gagnvart óbólusettum landsmönnum. Innan tíðar verður þeim óheimilt að sækja veitingastaði, menningarviðburði og eins verður þeim bannað að ferðast með flugvélum og lestum á lengri leiðum.

Hingað til hefur óbólusettum Frökkum nægt að sýna neikvætt kórónuveirupróf en efri deild franska þingsins hefur samþykkt hertar reglur. Frá þessu er greint á vef norska ríkisútvarpsins. Fyrirætlunum stjórnvalda var mótmælt hástöfum á götum úti í Frakklandi.

Örstutt er síðan Emmanuel Macron Frakklandsforseti kvaðst ætla að ergja óbólusetta uns faraldrinum lyki. Ummæli hans ollu hneykslan meðal þingmanna sem voru að ræða hertar sóttvarnaraðgerðir sem beint er að óbólusettum. 

Ætlunin er að ráðstafanirnar sem nú hafa verið samþykktar gildi meðan fleiri en tíu þúsund liggja á sjúkrahúsum vegna covid en í dag er fjöldinn 24 þúsund. Skömmu fyrir áramót kynntu frönsk stjórnvöld hertar samkomutakmarkanir í landinu. 

Á þriðjudag greindist metfjöldi nýrra kórónuveirusmita í Frakklandi eða 350 þúsund. Vel á tíundu milljón Frakka hafa greinst með kórónuveiruna frá upphafi  og á annað hundrað þúsund dáið úr sjúkdómnum.