„Ég var svo varnarlaus og hræddur“

Mynd: RÚV / RÚV

„Ég var svo varnarlaus og hræddur“

13.01.2022 - 13:48

Höfundar

Eysteinn Orri Gunnarsson varð fyrir áfalli um tvítugt og þurfti að vera löngum stundum hjá ástvini á spítala. Einn daginn á leið þaðan brotnaði hann saman yfir að geta ekki hjálpað manneskju sem honum þótti vænt um. „Það var ógeðsleg tilfinning,“ rifjar Eysteinn upp. Hann fékk hugljómun og ákvað á þeirri stundu að verða sjúkrahúsprestur.

Eysteinn Orri Gunnarsson ætlaði alls ekki að verða prestur. Honum datt helst í hug að fara í lögfræði eða hagfræði eins og systkini hans en hann hlustaði á innsæið og starfar í dag sem sjúkrahúsprestur. Hann hefur verið trúaður frá barnæsku og minnist þess ekki þegar hann fann fyrst fyrir tengingu við almættið. „Ég er ekki með móment í lífinu þar sem ég segi: hérna er þetta. Ég hef alltaf haft tilfinningu fyrir þessu, síðan ég man eftir mér,“ segir hann í þættinum Okkar á milli sem er á dagskrá í kvöld. „Ég var það lítill að ég var ekki að skilgreina það. Ég hafði djúpa og mikla tilfinningu sem ágerðist með árunum og hún kemur ekki úr bókmenntum eða kristilegu uppeldi, eða trúarlegu. Þetta kemur annars staðar frá.“

Hann man þó eftir kölluninni að verða sjúkrahúsprestur. Þá var hann tvítugur og varð fyrir miklu áfalli, ásamt ástvini, og varði miklum og erfiðum tíma á spítala. Á heimleið einn daginn fékk hann hugljómun. „Ég man eftir því að í annarri viku eða þriðju, eða hvenær sem það var, var ég að labba heim. Ég labbaði frameftir ganginum í Fossvogi og fann bara eitthvað molna. Ég var svo varnarlaus og hræddur, það var allt vont,“ rifjar hann upp. Hann settist upp í bíl og keyrði heim til foreldra sinna þar sem hann fékk stuðning. „Ég fann hvað ég var brothættur og ég gat ekkert gert. Þetta er versta tilfinning í heiminum að geta ekki hjálpað einhverjum sem mér þykir svo vænt um. Það er ógeðsleg tilfinning,“ segir hann. Og þá áttaði hann sig á því hvað hann ætti að gera. Hann kláraði guðfræðikandídatinn í Háskólanum og lærði svo að verða sjúkrahúsprestur.

Okkar á milli er á dagskrá á RÚV í kvöld klukkan 20:05.

Tengdar fréttir

Mannlíf

„Þetta hafa verið tvö mjög erfið ár og enginn frítími“

Mannlíf

„Þú ert sú eina sem er með brún augu“