
Bálfarir verða sífellt algengari á Íslandi
Frá þessu er greint í Morgunblaðinu í dag en stefnt er að því að ný bálstofa fyrir kirkjugarða Íslands verði tilbúin innan fimm til sex ára. Íslendingar eru enn eftirbátar Dana og Svía, þar sem meirihluti útfara eru bálfarir.
Um það bil 250 kirkjugarðar eru á Íslandi og nemur heildarfjárframlag ríkisins til þeirra tæpum 1,3 milljörðum króna.
Haft er eftir Þórsteini Ragnarssyni forstjóra Kirkjugarða Reykjavíkurprófastdæma og formanns Kirkjugarðasambands Íslands að kirkjugarðar séu fyrir alla.
Það sé óháð því hvaða lífsskoðun þeir aðhyllist en einnig sé hægt að fá leyfi til að dreifa ösku látinna utan kirkjugarða, í óbyggðum eða á sjó. Frumvarp liggi fyrir Alþingi með rýmri reglum um dreifingu ösku en Þórsteinn segir mikinn minnihluta fólks vilja dreifa ösku utan kirkjugarða.