Ástæða til að skoða endurgreiðslu launa í einangrun

13.01.2022 - 16:09
Mynd með færslu
 Mynd: Viðar Hákon Gíslason - RÚV
Full ástæða er til að Alþingi skoði að endurgreiða fyrirtækjum laun starfsmanna í einangrun vegna covid-19. Þetta segir Guðrún Hafsteinsdóttir, formaður efnahags- og viðskiptanefndar.

Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, viðraði þessa hugmynd á opnum fundi nefndarinnar fyrr í vikunni og sagði launakostnað fyrirtækjanna vegna fólks í sóttkví og einangrun hlaupa á milljörðum króna. 

Hingað til hefur fyrirtækjum staðið til boða að sækja um endurgreiðslu launa fólks í sóttkví en ekki einangrun. Ríkisstjórnir á Norðurlöndunum hafa ákveðið að bjóða líka endurgreiðslu launa fólks í einangrun vegna stóraukinnar útbreiðslu.

Guðrún segir enga ákvörðun hafa verið tekna í málinu en að ástæða sé til að ræða það.

„Við höfum ekki gert þetta hingað til hér á landi. Vitaskuld, þegar við erum farin að horfa upp á það að gríðarlegur fjöldi fólks, hátt í 20.000 manns, er í sóttkví eða einangrun, þá er þessi mynd töluvert mikið breytt,“ segir Guðrún.