
Vilja nýta túnfiskskvótann sem enginn hefur viljað
Túnfiskskvóti Íslands hefur aukist ár frá ári en þrátt fyrir það er enginn sem nýtir hann og íslenskur sjávarútvegur nýtur því ekki góðs af þessum umtalsverðu veiðiheimildum á bláuggatúnfiski. Í frétt stjórnarráðsins segir að veiðiheimildirnar séu eftirsóttar og því mikilvægt að þær séu stundaðar svo íslensk skip missi þær ekki. Útgefinn kvóti í fyrra var 225 tonn en hann var að mestu ónýttur.
Um 20 til 30 japönsk túnfiskveiðiskip voru við veiðar rétt utan íslensku efnahagslögsögunnar í nóvember og sum skipin fengu heimild til að koma inn fyrir lögsöguna vegna veðurs og sjólags.
Þegar túnfiskurinn færir sig fjær landi dugar ekkert annað en sérhönnuð frystiskip, og ekkert slíkt er til hér á landi. Ráðuneytið hefur haft til skoðunar hvernig hægt sé að koma til móts við íslensk skip svo þau geti hafið túnfisksveiðar að nýju. Vegna skorts á viðeigandi búnaði, sem ekki sé til staðar hjá íslenskum útgerðum, sé nauðsynlegt að heimila tímabundið leigu á sérhæfðum erlendum skipum til veiða á túnfisknum.
Hægt er að lesa nánar um málið í Samráðsgátt stjórnvalda en umsagnarfrestur er til 18. janúar næstkomandi.