Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Veitingamenn komnir á ystu nöf

Mynd:  / 
Veitingamenn sjá fram á hópuppsagnir og lokanir um næstu mánaðamót verði tekjufall sem þeir hafa orðið fyrir vegna samkomutakmarkana ekki bætt á allra næstu vikum.

Síðustu vikur hafa verið veitingamönnum þungar. 50 manna samkomutakmark var sett á í nóvember og ekki mátti hleypa gestum inn eftir klukkan tíu. Rétt fyrir jól voru takmarkanir hertar enn frekar, 20 manna fjöldatakmark og opnunartími styttur um klukkustund. Þær aðgerðir voru framlengdar um þrjár vikur í gær og mögulegt að þær verði hertar enn frekar á næstu dögum.

Næstu mánaðamót draga línuna í sandinn

Þegar takmarkanir voru hertar í desember sagði fjármálaráðherra að veitingaaðilum yrði bætt það tjón sem hlytist af skertum opnunartíma. Enn hefur ekkert verið bætt og var hljóðið í þeim veitingamönnum sem fréttastofa ræddi við í dag afar þungt. Þeir sjá fram á hópuppsagnir og jafnvel lokanir.

„Næstu mánaðamót draga svolítið línuna í sandinn með það hverjir hreinlega heltast úr lestinni ef ekki er til aðgerða gripið,“ segir Aðalgeir Ásvaldsson, framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja á veitingamarkaði, SVEIT.

Fyrir veitingamenn eru jólavertíðin einn stærsti tími ársins en þeir segja að vegna samkomutakarkana hafi tekjurnar aðeins verið brot af því sem ætla mátti. Ofan á tekjufall séu engar sértækar leiðir í boði og bankarnir óviljugir til að lána inn í veitingageirann. Áætla þeir að til að bæta þann skaða sem þegar hefur orðið, og til að mæta tekjufalli næstu missera, þurfi aðgerðir að hlaupa á sjö til tíu milljörðum króna.

Býst við aðgðerðapakka 17. janúar

Þá var það ekki til að létta lund  veitingamanna að á sama tíma og þeir bíða eftir aðgerðum, þá hafi Alþingi samþykkt að framlengja allir vinna átakið þótt núgildandi samkomutakmarkanir hafi ekki teljandi áhrif á byggingaiðnað.  „Okkur líður svolítið undanskilin en samtal okkar við stjórnvöld hefur bara verið jákvætt. Þó svo að það sé full seint til aðgerða gripið finnst okkur fyrir veitingageirann þá trúi ég því að það sé einhvers konar lausn í sjónmáli og geri ráð fyrir því að aðgerðapakki verði kynntur 17. janúar þegar Alþingi kemur saman aftur,“ segir Aðalgeir.

Magnús Geir Eyjólfsson